Otaði hníf að borgara við apótekið

Apótekarinn er við Bíldshöfða.
Apótekarinn er við Bíldshöfða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður sem framdi vopnað rán í Apótekaranum við Bíldshöfða í gær otaði hnífi sínum að borgara sem reyndi að stöðva för hans á leiðinni út. Ræninginn er enn ófundinn. 

Maðurinn ruddist inn í apótekið um kl. 10 í gærmorgun. Hann huldi andlit sitt að hluta með klút og því er erfitt að bera kennsl á hann af myndum úr öryggismyndavélum og frá fólki sem var í verslunarmiðstöðinni og sá til hans. Hann komst á brott með eitthvert magn lyfja. Engan sakaði.

Valgarður Valgarðsson aðalvarðstjóri segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi og að unnið sé úr ýmsum upplýsingum sem hafi borist. Til skoðunar er að birta mynd af manninum úr öryggismyndavél.

Valgarður telur ljóst að maðurinn sé íslenskur. Hann er því ekki sá hinn sami og rændi tvö apótek, á Suðurnesjum annars vegar og í Ólafsvík hinsvegar, í nóvember í fyrra. Sá var Bandaríkjamaður. 

Apótekarinn er í sama húsi og Húsgagnahöllin, Krónan, Arion banki, Bakarameistarinn og fleiri verslanir. Nokkrir sjónarvottar voru því á vettvangi og gátu sagt lögreglu frá því sem fyrir augu bar. Sumir tóku myndir sem lögreglan hefur nú fengið í hendur. 

Valgarður segir að borgari sem staddur var fyrir framan Apótekarann hafi reynt að stöðva för ræningjans með því að ganga í veg fyrir hann. „Þá otaði hann hnífnum að honum og hljóp svo í burtu.“

Valgarður segir að ræninginn hafi flúið á hlaupum en ekki er vitað hvort hann var á bíl. „Hann fór út og hvarf niður í hverfið. Þar týndist slóðin.“

Starfsmenn Apótekarans fengu áfallahjálp frá Rauða krossi Íslands eftir atvikið í gær. 

Ræn­ing­inn er karlmaður, tal­inn vera um 170 cm á hæð, grann­vax­inn, klædd­ur í rauða peysu, galla­bux­ur og með húfu. Hann var með svart­an bak­poka meðferðis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert