Átta sig á hættunni á hröðum vexti

Ferðamenn mynda hverinn Strokk. Ketill segir ferðaþjónustufyrirtæki gera sér grein …
Ferðamenn mynda hverinn Strokk. Ketill segir ferðaþjónustufyrirtæki gera sér grein fyrir hættunni sem stafar af hröðum vexti greinarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mikill áhugi er hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu og tengdri starfsemi á að auka samfélagsábyrgð sína. Greint var frá því í upphafi þessa árs að 130 fyrirtæki hefðu skrifað undir yf­ir­lýs­ingu um ábyrga ferðaþjón­ustu og hafði skráning þá farið fram úr björtustu vonum Ástu Krist­ínar Sig­ur­jóns­dóttur, klasa­stjóra Íslenska ferðaklasans, sem sagði í samtali við Morgunblaðið að hún hefði vonast eftir 50-80 skráningum.

Í dag hafa rúmlega 300 fyrirtæki skrifað undir yfirlýsinguna að sögn Ketils B. Magnússonar, framkvæmdastjóra Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, sem stendur að verkefninu.

Vilja að orðsporið haldist gott

„Okkur finnst þessi mikli áhugi sýna raunverulegan áhuga þeirra sem reka ferðaþjónustufyrirtæki á því að hugsa um heildina – að hugsa um atvinnugreinina þannig að orðsporið haldist gott,“ segir Ketill í samtali við mbl.is.

„Fyrirtækin gera sér grein fyrir hættunni sem stafar af þessum rosalega hraða vexti og vaxtaverkjunum sem honum fylgja. Við erum að vona að þessu fylgi að menn láti verkin tala.“

Ferðamenn á Þingvöllum. Þau fyrirtæki sem skrifa undir yfirlýsinguna um …
Ferðamenn á Þingvöllum. Þau fyrirtæki sem skrifa undir yfirlýsinguna um ábyrga ferðaþjónustu heita því að tryggja öryggi ferðamanna og koma fram við þá af háttvísi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ketill segir ábyrga ferðaþjónustu heldur ekki vera eitthvað sem menn leysi með einni undirskrift, heldur sé um að ræða þróunarverkefni sem taki lengri tíma.

„Það þarf margt að gerast til að hlutirnir komist í það horf sem við viljum,“ segir hann. „En þetta er vísbending um að atvinnugreinin telur mikilvægt að leggja áherslu á samfélagsábyrgð.“

Setja sér mælanleg markmið fyrir árslok

Ketill segir ábyrga ferðaþjónustu vera fjórþætt verkefni sem snúi að því að fyrirtækin heiti því að ganga vel um og hirða náttúruna, þá heiti þau því að tryggja öryggi ferðamanna og koma fram við þá af háttvísi. Sömuleiðis heiti fyrirtækin því að virða réttindi starfsfólks og að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið.

Festa hefur þegar staðið fyrir tveimur vinnustofum tengdum markmiðinu, en hlutverk Festu er að halda úti fræðsludagskrá sem hjálpar fyrirtækjunum að standa við fyrirheitin um að setja sér mælanleg markmið um þessa fjóra þætti fyrir árslok.

„Við ætlum að vera með samtals átta fræðsluviðburði tengda ábyrgri ferðaþjónustu á þessu ári. Þannig viljum við stuðla að því að það verði auðveldara fyrir fyrirtækin að setja sér markmið, mæla árangurinn og vinna að úrbótum.“

Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, segir ferðaþjónustufyrirtæki vilja að orðspor …
Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri Festu, segir ferðaþjónustufyrirtæki vilja að orðspor greinarinnar haldist gott.

Leita svara við sömu spurningum

Ketill segir fyrirtæki mikið leita svara við sömu spurningunum. „Ef við tökum dæmi um þessa fyrstu vinnustofu sem við vorum með, sem fjallaði um öryggismál í ferðaþjónustu, þá er þetta nokkuð sem fyrirtækin eru mikið að leita að hagnýtum upplýsingum um.“  

Öryggi ferðamanna hefur verið mikið í umræðunni undanfarna mánuði. Umræðan um ábyrgð ferðaþjón­ust­unn­ar tók til að mynda kipp í vet­ur þegar rúta með um 40 kín­verska ferðamenn inn­an­borðs fór á hliðina á Þing­valla­vegi. Þá lést taívansk­ur ferðamaður í skipu­lagðri vélsleðaferð á Lang­jökli árið 2013 þegar hann missti stjórn á sleðanum.

Ein þeirra spurninga sem forsvarsmenn fyrirtækjanna spyrja er að sögn Ketils, hvernig þeir, sem rekstraraðilar í ferðaþjónustu, geti haft hlutina á hreinu hjá sér? Ketill segir þau hjá Festu reyna að beina fyrirtækjunum  inn á aðferðir, umgjörðir og stjórntæki sem auðveldi þeim þetta starf.

„Vakinn, sem Ferðamálastofa stendur að, er til að mynda gæða-umhverfiskerfi í ferðaþjónustunni sem hentar mjög vel fyrirtækjum sem vilja hafa hlutina á hreinu þegar kemur að umhverfis-, gæða- og öryggismálum,“ segir hann.

„Fyrirtækin eru að leita að hagnýtum leiðum til að vera ábyrgari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert