Aldrei of seint að fara í nám

Þór Símon Ragnarsson gengur reglulega svonefndan stífluhring í Árbænum.
Þór Símon Ragnarsson gengur reglulega svonefndan stífluhring í Árbænum. mbl.is/RAX

Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað hérlendis hafa æ fleiri farið í nám til að öðlast réttindi í fararstjórn. Þór Símon Ragnarsson skellti sér í leiðsögunámið hjá Ferðamálaskóla Íslands á liðnu hausti og útskrifast í vor.

„Ég ákvað að gera mér það til dundurs í vetur að fara í þetta nám,“ segir Þór Símon, sem er 77 ára og starfaði sem bankamaður frá því hann lauk námi frá Samvinnuskólanum og þar til hann fór á eftirlaun.

Félagsmál hafa verið Þór Símoni hugleikin. Hann var fyrst kjörinn í stjórn knattspyrnudeildar Knattspyrnufélagsins Víkings í Reykjavík 1973 og sat þar til 1982, en 1996-2008 var hann formaður félagsins. Á árunum á milli var hann í stjórn Knattspyrnusambands Íslands. En leiðsögnin er annar handleggur.

Áhugavert efni

Þór Símon segir að eftir að hafa kynnt sér hvað kennt væri í Ferðamálaskóla Íslands hafi hann ákveðið að skella sér í það. „Ég sá að þetta var áhugavert og fróðlegt, skemmtilegt og lifandi efni til þess að rifja upp og tileinka sér og hefði í raun átt að fara í það fyrir löngu,“ segir hann. Áréttar að hann líti samt á námið fyrst og fremst sem endurmenntun. „Ég endurnýja sjálfan mig og held mér vakandi með þessu en horfi ekki til þess að fara aftur út á vinnumarkaðinn.“

Leiðsögunámið í Ferðamálaskólanum er í grunninn hugsað sem nám þar sem nemendur læra hvernig standa skal að leiðsögn ferðamanna um Ísland. Kennslan fer fram þrisvar í viku frá október fram í maí og er prófað í efni eins og til dæmis sögu, veðurfræði, jarðfræði, fuglum og flóru og svo framvegis. „Farið er yfir mjög mikið efni á skömmum tíma og maður lærir meðal annars að átta sig á hvar nálgast megi meiri upplýsingar,“ segir Þór Símon. Hann segir að ef menn ætli að starfa sem leiðsögumenn þurfi þeir að undirbúa sig mjög vel og námið auðveldi þann undirbúning.

Mánaðarlega er farið í skipulagða dags skoðunarferð og í hringferð um landið fá nemendur tækifæri til þess að spreyta sig í leiðsögn. Þór Símon hefur ferðast innanlands eins lengi og hann man eftir sér en með öðru hugarfari. „Ég hef aldrei haft leiðsögn í huga og þetta nám opnar aðra sýn á hvernig maður lítur á landið og umhverfið, þegar maður fer um það.“

Þór Símon á sér enga sérstaka uppáhaldsstaði og segir erfitt að gera upp á milli svæða. „Þær eru svo margar náttúruperlurnar og fallegir staðir víða,“ segir hann. „Aðalatriðið er að maður umgengst landið á annan og betri hátt en áður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert