Svaraði með tárin í augunum

Hjónin ásamt sonum sínum tveimur.
Hjónin ásamt sonum sínum tveimur.

Sandra Soløy Kjartansfru og eiginmaður hennar, Kjartan Ólafsson, hafa fengið íbúð til leigu á sömu kjörum og þau búa við núna. Íbúðin bauðst þeim í kjölfar fréttar mbl.is sem vakti mikla athygli um síðustu helgi.

Þar var greint frá því að hjónin, sem eiga tvo syni, einn fjögurra ára og annan níu mánaða, hefðu síðustu ár leigt 90 fer­metra íbúð í Kópa­vogi. Í nóvember hefðu þau fengið boð frá leigusalanum um að þau þyrftu að flytja út fyr­ir lok fe­brú­ar, þar sem hann þyrfti sjálf­ur að flytja inn.

Íbúðina hafa þau leigt fyrir 190 þúsund krónur á mánuði en við leitina buðust þeim einungis minni íbúðir, í kringum 70 til 80 fermetrar, á mun hærra verði, eða fyrir 220 til 250 þúsund krónur á mánuði.

„Þetta er bara svo von­laust, þessi leigu­markaður, að við erum núna byrjuð að leita að íbúð til að kaupa,“ sagði Sandra þá í samtali við mbl.is. „En það geng­ur ekki held­ur – það selst allt áður en maður hef­ur náð að gera kauptil­boð.“

Þannig náðu þau aðeins að gera til­boð í eina fast­eign.

„Allt hitt hef­ur verið selt um há­degið dag­inn eft­ir að við höf­um skoðað húsið.“

Þakklæti og gleði

Fréttin birtist á sunnudag fyrir viku. Strax um kvöldið höfðu blaðamanni borist tölvupóstar, þar sem fólk óskaði eftir að komast í samband við hjónin. Í einum þeirra sagðist maður einn, sem ekki vill láta nafns síns getið, reiðubúinn að leigja þeim stærri íbúð, tæpa 96 fermetra, á sama verði og þau hafa greitt undanfarin ár, eða fyrir 190 þúsund krónur á mánuði.

Sonurinn þarf ekki að skipta um leikskóla.
Sonurinn þarf ekki að skipta um leikskóla.

Áframsendi blaðamaður tölvupóstinn á Söndru, sem svaraði um hæl og sagðist vera með tárin í augunum.

Skemmst er svo frá því að segja að þau munu leigja íbúðina frá og með 1. maí næstkomandi, en þá flytur núverandi leigjandi út.

„Konan sem við leigjum hjá núna er yndisleg og ætlar að leyfa okkur að vera fram til mánaðamóta, jafnvel þrátt fyrir að hún þurfi íbúðina sjálf,“ segir Sandra í samtali við mbl.is í dag, glöð í bragði.

„Við erum svo þakklát fyrir allt þetta fólk sem hefur verið reiðubúið að hjálpa okkur,“ segir hún og bætir við að fleiri hafi sett sig í samband við hana á Facebook í kjölfar fréttarinnar. Samskiptin við manninn sem bauð þeim íbúðina hafi hins vegar gengið svo hratt og snurðulaust fyrir sig að hún hafi varla haft tíma til að spá í öðru.

Þarf ekki að skipta um leikskóla

„Þetta er mjög góð íbúð, stór og flott,“ segir Sandra. Geymsla fylgir nýju íbúðinni og bílskýli sömuleiðis, en það hafa þau ekki haft til þessa.

Íbúðin er þá einnig í Kópavogi, rétt eins og þau vildu, og ekki langt frá núverandi híbýlum þeirra.

Þarf fjögurra ára sonur þeirra því ekki að skipta um leikskóla.

„Ég sem var tilbúin að taka alla búslóðina með mér og fara aftur til Noregs,“ segir hún og hlær. „Við erum rosalega ánægð, en vitum á sama tíma að við höfum verið virkilega heppin með þetta allt.“

Nýbyggingar að rísa í Urriðaholti.
Nýbyggingar að rísa í Urriðaholti. mbl.is/Árni Sæberg

Napurlegt um að litast á húsnæðismarkaðnum

Og ekki eru allir svo heppnir, eins og gefur að skilja. mbl.is hefur fjallað ítarlega um stöðuna á húsnæðismarkaði undanfarnar vikur. Fram hefur komið að spurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er langt umfram framboð á markaðnum.

Langvar­andi lóðaskort­ur, hátt lóðaverð og mik­ill fjár­magns­kostnaður und­an­far­in ár hefur meðal annars verið sagt valda þessu. Kaupgeta almennings sé „hreinlega ekki til staðar“.

Meðal annars greindi mbl.is frá því að á síðustu átta árum hef­ur verið lokið við smíði 2.068 íbúða í Reykja­vík. Ekki hafa verið reist­ar jafn­fá­ar íbúðir í borg­inni í fleiri ára­tugi. Raun­ar þarf að leita aft­ur til stríðsár­anna til að finna sam­bæri­legt átta ára tíma­bil.

Þá hefur komið í ljós að í dag eru 3.560 íbúðir skráðar í bygg­ingu á höfuðborgarsvæðinu. Í Reykja­vík er rétt rúm­lega helm­ing­ur þess­ara íbúða í bygg­ingu, eða í kring­um 1.800.

Friðrik Á. Ólafsson, viðskipta­stjóri bygg­ing­ariðnaðar hjá Sam­tök­um iðnaðar­ins, hefur sagt það munu hrökkva skammt. „Við erum varla byrjuð, við erum með þessu varla að upp­fylla þörf­ina, hvað þá að saxa á það sem vant­ar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert