Kettir hvíld frá klikkuðum heimi

Persónur í krúttlegasta raunveruleika þætti heims, Keeping up with the …
Persónur í krúttlegasta raunveruleika þætti heims, Keeping up with the Kattarshians. Myndir/Nútíminn

Þeir eru fjörugir en kunna að slappa af. Þeir eru forvitnir ærslabelgir og lenda oft í klandri af þeim sökum. Þeir eru sjálfstæðir en um leið gefandi. Svo eru þeir bara svo sætir.

Kettir hafa bókstaflega tekið yfir internetið. Vinsældir þeirra á þeim vettvangi hafa þó verið til staðar frá upphafi. Sá sem fann upp veraldarvefinn var nýlega spurður hvað hefði komið honum mest á óvart við notkun netsins. Svarið var einfalt: Kettlingar.

Talið er að um 15% allrar netumferðar á degi hverjum tengist köttum með einhverjum hætti. Daglega horfa hundruð þúsunda jarðarbúa á kattamyndbönd. Fjöldi áhorfa á slík myndskeið á YouTube er kominn yfir 26 milljarða. Mikill fjöldi skoðar svo myndir af þessum dýrum á samfélagsmiðlum. Laugardagar eru orðnir kisudagar á Instagram og þúsundir mynda sem merktar eru með myllumerkinu #caturday eru birtar. Aðdáendur katta skoða svo tugi mynda af ókunnugum köttum sem oftast eru ekkert að gera annað en að kúra.

Kisusystkini í beinni

Það ætti því ekki að koma á óvart að íslenskur raunveruleikaþáttur, Keeping Up With the Kattarshians, hafi farið sigurför um heiminn. Í honum er stöðugt fylgst með litlum kettlingum taka sín fyrstu skref í lífinu í fallegu litlu húsi sem sérstaklega er hannað með þarfir þeirra í huga. Og þúsundir fylgjast með. Horfa á systkinin Heklu, Kötlu, Vigdísi, Bubba og Þór hamast í leik og hvíla sig svo saman í kojum inn á milli.

Samkvæmt upplýsingum frá Nútímanum, þar sem þættirnir eru sýndir, hafa hundruð þúsunda horft á Kattarshians um allan heim. Nokkur þúsund eru að jafnaði að horfa á hverri einustu mínútu sólarhringsins.

Þessi viðbrögð almennings komu ritstjóra Nútímans, Atla Fannari Bjarkasyni, ekkert „brjálæðislega mikið“ á óvart. Áhugi fjölmiðla gerði það þó. „Ég bjóst ekki við að tala um Kattarshians í beinni á Sky News eða vera döbbaður á spænsku í viðtali í kólumbískum þætti. Risastórir fjölmiðlar um allan heim hafa fjallað um Kattarshians. BBC, NBC, ABC, Telegraph, Guardian — meira að segja Vogue. Við erum löngu hætt að telja fjölmiðlana og löndin,“ segir Atli Fannar.

- En hvers vegna vill fólk horfa á ketti?

„Kettir og þá sérstaklega kettlingar eru mjög sætir og skemmtilegir,“ svarar Atli. „Það er mjög auðvelt að elska þá. Ég held að fólk gleymi sér í Kattarshians vegna þess að þetta er svo róandi sjónvarpsefni. Það er auðvelt að flýja klikkaðan raunveruleikann með því að horfa á þau sofa og það er ákveðin jarðtenging fólgin í að fylgjast með þeim leika sér.“

Atli Fannar segist hafa  bent fólki á að fyrir hverja frétt sem það lesi um Donald Trump ætti það að horfa í fimm mínútur á Kattarshians til að stilla sig af.

Eldri borgarar dyggir áhorfendur

Verkefnið er unnið í samstarfi við Kattholt og þar á bæ telja menn sig finna fyrir áhrifum Kattarshians. „Þessi áhugi á þættinum er ótrúlegur,“ segir Halldóra Björk Ragnarsdóttir hjá Kattholti. „Fólk hringir í okkur og spyr um þessar kisur. Við höfum líka fengið símtöl frá eldra fólki sem biður okkur að koma því til skila að það megi alls ekki hætta með þáttinn, hann gefi því svo mikið.“

Þessi mynd af veikri, eldri konu með kisuna sína er …
Þessi mynd af veikri, eldri konu með kisuna sína er meðal vinsælla mynda á netinu. Af Reddit

Hún segist hafa talað við eldri borgara sem fylgist með daglega og horfi jafnvel á þáttinn með gæludýrunum sínum. Þá fékk Nútíminn skilaboð frá manni sem sagðist vera að syrgja köttinn sinn sem drapst úr krabbameini og að Kattarshians væri það eina sem gæti glatt hann.

„Það hrífast allir af kettlingum,“ segir Halldóra um ástæður vinsældanna. „Þeir eru svo sætir. Kettir eru svo notalegir, þeir eru þægilegir og hafa góð áhrif á fólk, það er slakandi að vera í kringum þá. Það lækkar blóðþrýstinginn.“

Nútímanum hafa borist skilaboð frá fólki um einmitt þetta: Að áhorf á þáttinn hafi bókstaflega lækkað blóðþrýstinginn hjá því.

Það þykir enda sannað að það geti bætt heilsu fólks að umgangast ketti og önnur gæludýr. En það getur líka verið hollt að horfa á þá á netinu. Það eykur jafnvel hamingju, dregur úr streitu og sorg.

Kötturinn hjálp við þunglyndi

Það er sannarlega reynsla listamannsins Kött Grá Pje, Atla Sigþórssonar. Læðan hans, Kalika sem er kölluð Kalí, er að verða þriggja ára. „Ég tek undir þessi jákvæðu áhrif katta með upphrópunarmerkjum og handasveiflum! Alveg tvímælalaust. Ég hef lengi glímt við þunglyndi og kvíða. Kalí hefur verið alveg ómetanleg hjálp. Það er bara staðreynd í mínu tilfelli.“

Kattavinurinn Atli segist vera með allt að því þráhyggjukenndan áhuga og aðdáun á köttum. Hann er hins vegar með mikið kattaofnæmi. Hann langaði að eignast kött og fór að leita að lausnum á netinu. Þar las hann sögu manns sem tókst að bæla ofnæmið með því að fá sér unga læðu og taka ofnæmislyfið Lóritín fyrstu æviár hennar. Kunningi Atla þurfti svo að losna við kettling og ákvað hann að láta á þetta reyna. „Og það er skemmst frá því að segja að þetta heppnaðist. Ég tók Lóritín í ár og ofnæmið rjátlaði af mér. Ég finn engin ofnæmisviðbrögð gagnvart henni lengur.“

Kalika leggur sig þar sem henni sýnist, segir Kött Grá …
Kalika leggur sig þar sem henni sýnist, segir Kött Grá Pje. Hún velur oft að leggja sig ofan á honum. Af Instagram

Blíðir hrokagikkir

Kalika er inniköttur og þar sem Atli hefur aðallega unnið heiman frá sér um hríð eyða þau miklum tíma saman. „Við höngum mikið saman og náum vel saman.“

Atli telur að hrifning fólks á köttum eigi sér ýmsar skýringar. „Þeir eru þóttafullir og virka stundum óttalegir hrokagikkir og eiginhagsmunaseggir. En jafnframt eru þeir svo yndislega blíðir. Það eru þessar andstæður sem höfða til mín.“

Hann bendir á að kettir hafa fylgt mannfólkinu frá örófi alda og allan tímann verið því innblástur. „Það er eitthvað við ketti sem talar djúpt við sálina í fólki. Þeir örva þannig sköpunargáfu okkar.“ Listamannanafnið Kött Grá Pje er einmitt tilvísun í gráan kött sem Atli átti einu sinni. Þá semur hann lög og texta um ketti.

Kalika er á flestum þeim myndum sem Atli birtir á Instagram. Hann segist svo sjálfur skoða myndir af annarra manna köttum. „Það er það sem ég hef mest gaman af við samfélagsmiðla,“ segir Atli hlæjandi. Á Instagram fylgir Atli vinum og tónlistarfólki en „langmest köttum úti í heimi.“

Kisumyndir vinsælli en selfies

Og Atli er ekki einn.

Þó að „selfies“ virðist tröllríða netinu þá eru kattamyndir mun vinsælli. Árið 2014 var meira en 3,8 milljónum kattamynda og myndskeiða dreift á netinu dag hvern samanborið við 1,4 milljónir sjálfsmynda.

„Það sem nær að snerta tilfinningar fólks er líklegra til að ná árangri,“ segir Magnús Magnússon, sérfræðingur í samfélagsmiðlun á Íslensku auglýsingastofunni, spurður um vinsældir katta á netinu. „Kettir og kettlingar eru litlir og krúttlegir en samt eru þeir þannig að maður veit ekki alveg hvar maður hefur þá. Það er eitthvað í því sem fær fólk til að horfa og deila.“

Á þessari mynd má sjá hvernig mismunandi notkun ólíka samfélagsmiðla …
Á þessari mynd má sjá hvernig mismunandi notkun ólíka samfélagsmiðla er útskýrð með köttum.

Magnús segir að á þessum forsendum sé einnig reynt að ná til fólks í auglýsingum, þ.e. að vekja tilfinningar eða langanir. „Þá eru alls konar trix notuð, hvort sem það eru kettir, tónlist eða annað.“ Hann segist þó ekki finna mikið fyrir því að kúnnar Íslensku auglýsingastofunnar vilji nota ketti í sínum auglýsingum. „En það er alveg augljóst að hægt er að ná til fólks með köttum og þeim krúttheitum sem þeim fylgja.“

Á barmi heimsfrægðar

Kisurnar í Kattarshians-þættinum eru mögulega á barmi heimsfrægðar, ef þær hafa ekki nú þegar náð þeim áfanga. Þær eru þá komnar í hóp sérstaklega vinsælla katta sem hafa gert það gott á netinu.

Vinsælasti köttur YouTube frá upphafi er Maru. Hann býr í Japan og rúmlega hálf milljón manna er áskrifandi af myndböndum af honum. Hann er einna þekktastur fyrir að troða sér í kassa og vefja sér inn í dagblað. Aðdáendur hans hafa horft á hann vel yfir 300 milljón sinnum.

Þá er ekki hægt að skrifa grein um ketti á netinu án þess að minnast á Grumpy Cat, öðru nafni Tardar Sauce. Kisan sú er einnig þekkt í raunheimum, því um hana hafa verið skrifaðar bækur og heil vörulína hefur verið sett á markað í hennar nafni. Útlit hennar er nokkuð sérstakt, hún er með yfirbit, sem virðist höfða til margra.

Magnús hjá Íslensku auglýsingastofnunni segist halda mikið upp á Grumpy Cat. „Það sem heillar við hann er að hann lýsir einhvern veginn tilfinningum manns sjálfs á fyndinn hátt.“ 

Fá myndbönd af köttum hafa notið viðlíka vinsælda og „kötturinn undrandi“ sem var sett á YouTube árið 2009. Horft hefur verið á það 77,4 milljón sinnum.

Kettir eru sjálfstæðir. Fara sínar eigin leiðir eins og oft er sagt. Þeir eru í raun ótemjur, sem engu að síður aðlagast mannheimum einstaklega vel. Að sögn fræðinga skýrir þetta að einhverju leyti vinsældir þeirra á netinu. Til þess eiginleika katta var til dæmis horft í gerð auglýsingar Sjóvár þar sem köttur brýtur óvart allt og bramlar á meðan eigendurnir eru víðs fjarri.

Magnús segir auglýsinguna sýna hvað kettir standa fyrir í hugum fólks: „Maður veit aldrei almennilega hvað kettir eru að gera eða hvar maður hefur þá.“

Radha O´Meara sem starfar við Massey-háskólann á Nýja-Sjálandi rannsakaði þetta efni sértaklega. Niðurstaða hennar var sú að vinsældir kattamyndbanda megi í stuttu máli skýra með þessum orðum: Þeim er alveg sama þó að verið sé að mynda þá. Þeir fara ekki að sýnast neitt eða einbeita sér að þeim sem tekur myndbandið upp líkt og börnum og hundum hættir til. Sjálfstæðið, sem er þeirra aðalsmerki, kemur vel í ljós. Þá er ekki hægt að temja til fulls.

„Ég tel að þetta höfði til áhorfenda sem eru svo vanir því um þessar mundir að vera stöðugt undir vökulu auga myndavéla [...] Við getum fylgst með köttunum sem er slétt sama þó að þeir séu undir smásjá.“

Undir þessari smásjá okkar mannfólksins er nú systkinahópurinn fallegi og forvitni í Kattarshians.

En ætli systkinin Hekla, Katla, Vigdís, Bubbi og Þór séu meðvituð um frægð sína?

„Ég efast nú um það,“ segir Halldóra í Kattholti hlæjandi. „Frægðin hefur að minnsta kosti ekki stigið þeim til höfuðs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert