Unglingapartý og undarlegt aksturslag

Talsverður erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt, sem hafði m.a. afskipti af unglingapartýi í heimahúsi í Breiðholti þar sem mörg ungmenni voru saman komin. Einhverjir voru ósáttir við afskipti lögreglu og var einn handtekinn en látinn laus skömmu síðar.

Einum og hálfum tíma síðar barst lögreglu önnur tilkynning um hávaða og partý í heimahúsi í Breiðholti og stöðvaði hún gleðskapinn.

Rétt fyrir kl. 6 var lögregla í Kópavogi og Breiðholti kölluð á vettvang þegar farþegi neitaði að greiða fyrir þjónustu leigubílstjóra og hótaði honum með ætluðu eggvopni. Farþeginn var handtekinn og fluttur í fangageymslu við Hverfisgötu vegna rannsóknar málsins.

Lögreglan á svæðinu hafði einnig afskipti af nokkrum ökumönnum vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og þá var tilkynnt um aðfinnsluvert aksturslag bifreiðar á Höfðabakka en í ljós kom að ökumaðurinn var kominn talsvert á aldur en var að öðru leyti í lagi.

Hann er fæddur 1927, samkvæmt tilkynningu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert