„Upplifi mig aldrei einangraðan“

„Ég upplifi mig aldrei einangraðan. Ef það er vont veður þá kemst ég ekki neitt en það pirrar mig ekki neitt,“ segir Salvar Baldursson, bóndi í eyjunni Vigur í Ísafjarðardjúpi. Þangað er um 40 mínútna sigling frá Ísafirði og margir ferðamenn heimsækja eyjuna yfir sumarið en minna er um ferðir þangað yfir veturinn.

mbl.is heimsótti Vigur í vikunni í ferð sem var skipulögð af aðstandendum tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður. Mikil náttúrufegurð er í eyjunni þar sem há fjöll og djúpir firðir eru allt í kring. Á milli 8 og 9.000 ferðamenn heimsóttu eyjuna í fyrrasumar og Salvar segir það vera mikla upplifun fyrir útlendinga að kynnast lífsháttum í Vigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert