Fimm handteknir á Kleppsvegi

Mynd úr safni af sviðsettu innbroti.
Mynd úr safni af sviðsettu innbroti. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lögreglan handtók fimm ölvaða unga menn síðdegis í gær á Kleppsvegi. Mennirnir eru grunaðir um margvísleg brot, svo sem nytjastuld bifreiðar, eignaspjöll og ölvun við akstur.  Mennirnir eru vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.

Um miðjan dag í gær var maður í annarlegu ástandi handtekinn þar sem hann var að brjótast inn í fyrirtæki við Skólavörðustíg. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Um átta í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr verslun við Lækjargötu til lögreglu en þar hafði maður stolið tveimur dýrum úlpum.

Lögreglan handtók manninn skömmu síðar með báðar úlpurnar en hann er einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Maðurinn er vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þrír ungir menn voru handteknir á lokuðu athafnasvæði Eimskipa við Sundahöfn um klukkan 22 í gærkvöldi. Mennirnir eru kærðir fyrir húsbrot og eru vistaðir í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn máls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert