Hafa brotið 30-40 rúður á 10 dögum

Svona var aðkoman við strætóskýli við Mörkina eftir að búið …
Svona var aðkoman við strætóskýli við Mörkina eftir að búið var að brjóta rúðu þar. Einar segir tjónið vera komið yfir eina milljón. Ljósmynd/Einar Hermannsson

Síðustu 10 daga er búið að brjóta 30-40 rúður í strætóskýlum við Skeifuna og í Laugardal. Framkvæmdastjóri AFA JCDecaux á Íslandi, Einar Hermannsson, segir tjónið vera komið yfir eina milljón en fyrirtækið stendur eitt að kostnaðinum.

Í samtali við mbl.is segist Einar vera búinn að láta lögreglu vita og ætlar hún að fylgjast betur með á svæðinu. „En næsta skref er bara að setja faldar myndavélar við skýlin,“ segir Einar en hann telur sama einstaklinginn vera á bak við skemmdarverkin síðustu daga. 

Hann segir það ekkert nýtt að skemmdarvargar brjóti rúður í strætóskýlum en segir ástandið aldrei hafa verið eins slæmt og núna. Einar segir lítið mál að brjóta rúðurnar séu menn með réttu græjurnar. „Það er til dæmis alveg nóg að vera með neyðarhamar úr rútum. Þá þarf bara smá högg og rúðan brotnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert