„Þetta varð ofboðslegur reykur“

„Ég var að vinna á henni þegar það fór að rjúka undan húddinu,“ segir Ágúst Rúnarsson, bóndi á Vestra-Fíflholti í Vestur-Landeyjum en eldur kom upp í dráttarvél sem hann var að vinna á í hádeginu í dag. Ágúst drap á dráttarvélinni og rauf strauminn og fór síðan heim á bæinn til þess að ná í slökkvitæki.

Frétt mbl.is: Kviknaði í dráttarvél

„Þegar ég kom til baka stóð hún í björtu báli. Þá hringdi ég bara á Neyðarlínuna,“ segir Ágúst. Hann segir slökkviliðið hafa komið mjög fljótt á staðinn og vel hafi gengið að slökkva eldinn. „Þeir voru snöggir, ofsalega snöggir.“ Spurður hvort um nýlega dráttarvél hafi verið að ræða segir Ágúst að hún hafi verið átta ára gömul. „Maður getur alltaf huggað sig við að það varð ekki slys.“

Mikill reykur kom vegna eldsins og sást hann langar leiðir. „Þetta varð ofboðslegur reykur enda svakalegur eldsmatur. Hundrað lítrar af glussa og hundrað lítrar af hráolíu og svo smurolía. Síðan er svo mikið af plasti, plasthlífar og annað. Það verður bara rosaleg mengun af þessu. En þetta brennur hins vegar á stuttum tíma.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert