Freista þess enn að stytta biðlista

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við Landspítalann, Sjúkrahúsið á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands um að framkvæma valdar aðgerðir á grundvelli átaks stjórnvalda til að stytta biðlista.

Frá þessu er greint á vefsíðu velferðarráðuneytisins.

Þar segir að þetta sé annað árið af þremur sem átakið nær til en til ráðstöfunar eru 840 milljónir. Aðgerðirnar sem um ræðir eru liðskiptaaðgerðir, hjartaþræðingar og augasteinsaðgerðir, auk valinna kvensjúkdómaaðgerða.

Gert er ráð fyrir að ráðist verði í sambærilegan fjölda aðgerða og í átakinu á síðastliðnu ári en endanlegar upplýsingar um fjölda aðgerða á hverri stofnun liggja fyrir á næstu dögum. Í fyrra leiddi átakið til þess að gerðar voru 48% fleiri liðskiptaaðgerðir en ella og 137% fleiri augasteinsaðgerðir. Hjartaþræðingum fjölgaði lítið sem ekkert, eða um 1%.

Landspítalinn mun annast allar tegundir þeirra aðgerða sem falla undir átakið og Sjúkrahúsið á Akureyri framkvæmir allar aðgerðir aðrar en hjartaþræðingar. Heilbrigðisstofnun Vesturlands mun annast liðskiptaaðgerðir,“ segir í fréttinni á vef ráðuneytisins.

Leitað hefur verið til Sjónlags og Lasersjónar um þátttöku í átakinu vegna augasteinsaðgerðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert