„Ég er ekki stolt af þessu“

Theódóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Theódóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér finnst þetta ekki fagnaðarefni. Ég er ekki stolt af þessu og þetta er ekki til þess fallið að auka traust almennings á kerfislega mikilvægum fjármálastofnunum og stofnunum yfirleitt,“ sagði Theódóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hún svaraði fyrirspurn frá Þórunni Egilsdóttur, þingflokksformanni Framsóknarflokksins, um söluna á 30% hlut í Arion banka.

„Ég hef áður rætt, í tvígang held ég, hér í þessari pontu um vogunarsjóðina og um þá mikilvægu umræðu sem fara þarf fram um eigendastefnu ríkisins í fjármálafyrirtækjum þegar kemur að því að selja ríkisbankana. Fara þarf fram öflug umræða um slíkt og traust þarf að ríkja. Mér finnst þau mjög ósannfærandi, þessi 9,99%, í þeim fréttum sem hafa verið að berast núna. Hvert er markmiðið? Það vita það allir og sjá það allir. Þetta er rétt undir viðmiðum FME, eða Fjármálaeftirlitsins, um virkan eignarhlut, sem er 10%. Þetta er mjög ósannfærandi og ekki til þess fallið að skapa traust.“

Theódóra sagði íslensku þjóðina eiga betra skilið en þetta. „Bankarnir fóru í þrot, drógu fólk eins og mig og fleiri með sér í svaðið með ólögmætum hætti og það tekur mörg ár að ná sér upp úr því. Við þurfum að skapa hér traust. Við gerum það ekki með þeim hætti sem gert hefur verið varðandi söluna á Arion banka. Gegnsæi og traust eru númer eitt, tvö og þrjú. Við þurfum að vita hverjir eru eigendur þessara banka. Þetta er algjörlega óviðunandi í mínum huga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert