Hetjudáð Íslendings í Kansas

Benjamin Pálsson ásamt Jim Lafakis.
Benjamin Pálsson ásamt Jim Lafakis. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hugsaði með mér að við þyrftum að koma honum út úr húsinu. Þegar við fylgdum honum út hafði eldurinn læst sér í aðra hlið hússins. Það var frekar ógnvekjandi,“ segir Benjamin Þór Pálsson sem bjargaði 84 ára gömlum manni úr brennandi húsi í stórbruna í Overland Park í Kansas í Bandaríkjunum þar sem hann hefur búið alla ævi. Faðir hans heitir Þórður Pálsson og fósturmóðir hans Laufey Eydal.

Fjölmiðlar vestanhafs hafa keppst við að gera hetjudáð hans skil og þegar mbl.is sló á þráðinn til hans í kvöld hafði fréttastofan Fox News nýverið heimsótt hann í skólann og spjallað við hann um afrekið.

Ben varð eldsins var í gærdag þegar hann keyrði heim úr skólanum. Eldur hafði kviknað í nýbyggingu og var farinn að dreifa sér í nærliggjandi hús, alls kviknaði í 22 húsum. Fyrstu viðbrögð hans voru að ganga í nærliggjandi hús og aðstoða íbúana við að koma sér út. Hann gekk á milli húsa og bankaði til að tryggja að íbúarnir myndu yfirgefa húsin. Slökkviliðsmenn voru ekki komnir á staðinn á þessari stundu. 

Benjamin Pálsson.
Benjamin Pálsson. Ljósmynd/Aðsend

Öskunni rigndi yfir 

Þegar Ben kom að húsi Jim Lafakis sá hann í gegnum gluggann að Jim sat inni og horfði á sjónvarpið með heyrnartól á eyrunum, grunlaus um á hverju gekk utandyra. „Við brutum upp hurðina á húsinu hans og fylgdum honum út um leið og ösku rigndi yfir okkur,“ segir Ben.

Þegar hann hafði gengið úr skugga um að Jim væri kominn í öruggt skjól fór hann aftur inn á heimili Jims og náði í stólinn hans svo hann gæti hvílt sig. Á meðan Ben aðstoðaði annan nágranna við að rýma húsið sitt fór Jim aftur inn í húsið sitt til að ná í símann sinn til að láta dóttur sína vita. „Þá fylgdum við honum aftur út úr húsinu en á þessari stundu var húsið að fyllast af reyk því eldurinn hafði dreifst í húsþökin,“ segir Ben. Hann fylgdi Jim til slökkviliðsmanna og náði í leiðinni í vatnsflösku úr bílnum sínum og gaf honum. Jim náði svo sambandi við dóttur sína með hjálp nágrannanna.

Eftir það hélt Ben áfram að aðstoða íbúana eftir fremsta megni. Hann segir eldhafið hafa verið gífurlegt og hitann mikinn. „Slökkviliðsmennirnir eru hinar raunverulegu hetjur,“ segir Ben sem vildi ekki gera mikið úr viðbrögðum sínum því hann vildi fyrst og fremst hjálpa náunganum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert