Hjartað slær í leikhúsinu

Anna María leikstýrir Kevin Jurado og Eva Cavadini.
Anna María leikstýrir Kevin Jurado og Eva Cavadini.

Anna María Tómasdóttir flaug inn í meistaranám í leiklist við hinn virta Actors Studio Drama School í New York. Um leið var henni boðið að nema leikstjórn samhliða leiklistinni og er hún því nú að útskrifast úr tvöföldu námi, undir handleiðslu færasta leikhúsfólks Bandaríkjanna.

The Actors Studio eru samtök leikara, leikstjóra og leikritaskálda sem voru stofnuð 1947 af leikstjóranum Elia Kazan, en nú eru það leikararnir Al Pacino, Ellen Burstyn og Harvey Keitel sem stjórna samtökunum. Actors Studio er hvað þekktast fyrir að leikaðferðina The Method sem þróuð var eftir aðferðum rússneska leiksnillingsins Stanislavski.

„Stanislavski er í raun faðir vestrænnar leiklistar eins og við þekkjum hana í dag,“ segir Anna María Tómasdóttir sem einblínir daglega í skólanum á aðferðir hans.


„Leikhópurinn hans kom til Bandaríkjanna 1930, setti upp sýningar og hélt námskeið og þannig byrjaði bandarískt leikhús að blómstra. Síðan var Actors Studio stofnað og meðlimir þess eru margar af helstu leikstjörnum Bandaríkjanna: Marlon Brando, James Dean, Julia Roberts, Sean Penn, Marilyn Monroe og svo mætti lengi telja. Þessi aðferðafræði er sú sem er mest notuð í heiminum, en skólinn minn er sá sem helgar sig þessum aðferðum algjörlega.“

Anna María er mjög ánægð með námið í Actors Studio …
Anna María er mjög ánægð með námið í Actors Studio Drama School þar sem hún er í tvöföldu námi; leiklist og leikstjórn. Ljósmynd/Elísabet Davíðsdóttir


Lásu hugsanir mínar

„Ég sótti um í leiklist, en í inntökuprófinu var mér boðið að fara í leikstjórann, en um leið taka alla sömu tímana og leikararnir. Við erum bara fjögur í bekknum mínum sem erum leikstjórar og ég er sú eina sem fór í þetta tvöfalda nám. Mér fannst frábært að vera boðið þetta og sló til,“ segir Anna María sem viðurkennir að hafa ekki sofið mjög mikið seinustu tvö og hálft ár. „Allan þennan tíma hef ég verið í skólanum frá 9 á morgnana til 10 eða 11 á kvöldin. Svo kem ég heim að lesa fjöldann allan af leikritum og æfa senur sem leikkona og leikstjóri. Þetta er búið að vera rosalegt.“ En Anna María sér ekki eftir neinu. „Mig langaði að læra leiklist því mér finnst ofsalega gaman að leika, en innst inni langaði mig alltaf að verða leikstjóri. Það er eins og þeir hafi lesið hugsanir mínar.“

Og Anna María hefur greinilega staðið sig vel, því sem hluti af lokaverkefninu leikstýrði hún tilraunaleikhúsverki sem hefur verið boðið að taka þátt í hátíðinni Unfix sem haldin verður í apríl í Bronx-hverfi í New York.

Leikstýrir þremur ólíkum verkum í einu


Anna María vinnur nú hörðum höndum að lokaverkefninu sínu sem einnig felur í sér að leikstýra þremur mjög ólíkum verkum til að sýna breidd hennar sem leikstjóri. „Ég leikstýri verki sem heitir Crazy Eights eftir David Lindsey-Abaire. Þetta er sæt lítil kómedía og algjör realismi. Einnig þungu og hádramatísku leikriti sem heitir Doubt og er eftir Sean Patrick Shanley. Það var gerð bíómynd eftir því þar sem Meryl Streep, Amy Adams og Philip Seymour Hoffman léku aðalhlutverkin. Þetta er dimmt umræðuefni um kynferðislega misnotkun innan kaþólsku kirkjunnar. Það er ofboðslega áhugavert að leikstýra því verki því það snýst líka mikið um ferð áhorfandans sem flakkar fram og til baka yfir því hvort hann heldur að presturinn sé sekur eða saklaus. Þriðja verkefnið mitt er The Ugly One eftir þýska leikskáldið Marius von Mayenburg. Það er mjög óhefðbundið, þar sem fjórir leikarar leika átta hlutverk og þeir skipta um karakter innan einnar setningar og eru allt í einu komnir eitthvert allt annað.“

Anna María segist vera eins og fiskur í vatni í …
Anna María segist vera eins og fiskur í vatni í New York.


Að spegla sig í karakternum

Aðspurð hvort hún leikstýri með The Method-aðferðinni, þar sem leikararnir lifa í karakternum sínum í gegnum allt vinnsluferlið, segir hún það mjög hvimleiðan misskilning og rangtúlkun á aðferðafræðinni.

„Þegar Daniel Day Lewis og Heath Ledger og fleiri leikarar ákveða að lifa í karakternum sínum í margar vikur og segja að það sé The Method, er það er í raun ekki það, frekar misnotkun á nafninu ef eitthvað er. Ef ég væri að fara að leika heróínfíkil myndi ég ekki fara og gerast heróínfíkill til að finnast ég geta leikið hlutverkið. The Method eða kerfi Stanislavskis snýst um að leikarinn spegli sig í hlutverkinu og finni hliðstæður í eigin lífi til þess að skilja og tengjast karakternum og aðstæðunum sem hann er í og geta þannig leikið sannfærandi.

Mitt hlutverk sem leikstjóri er m.a. að skilja ferðalag karaktersins, hvað hann þráir, af hverju gerir það sem hann gerir, og reyna að finna rétta hegðun fyrir viðkomandi aðstæður. Líka að nota leikrýmið til að búa til líf á sviðinu. Það er svo yndislegt að vinna með leikhús því áhorfandinn samþykkir „platið“ til þess að geta lifað sig inn í það sem gerist á sviðinu og upplifað þannig eitthvað fallegt eða áhugvert.“


Aftur inn í kassann

Áður en Anna María byrjaði í náminu vann hún mikið við sjónvarp og kvikmyndir og þá aðallega í búningum og sviðsmynd. Hún segir þó að hvorki sviðsmyndanám né kvikmyndaleikstjórn hafi heillað hana.

„Mér finnst æðislegt í búninga- og leikmyndum, og kvikmyndagerð er rosalega spennandi vinna og alltaf nóg að gerast. En hjartað mitt slær alltaf í leikhúsinu þar sem ég ólst hálfpartinn upp,“ segir Anna María og útskýrir að móðir hennar sé Þórunn Elísabet Finnsdóttir búninga- og sviðsmyndahönnuður.

„Ég lauk fyrst BA-prófi frá Listaháskóla Ísland af námsbrautinni Fræði og framkvæmd, sem heitir núna Sviðshöfundabraut. Þar unnum við mikið með óhefðbundið leikhús og að hugsa út fyrir kassann. En mig langaði að læra meira og vildi læra mjög fínan tæknilegan strúktúr. Ég vildi því fara í þennan skóla sem einblínir mikið á Stanislavski aðferðina, tækni og strúktúr, og ég er að fá mjög gott alhliða nám sem leikkona og leikstjóri. Það er mjög skemmtileg viðbót við það að hugsa út fyrir kassann, að fara aftur algjörlega inn í kassann.

Leikarinn Alec Baldwin (fyrir miðju á myndinni) heimsótti skólann.
Leikarinn Alec Baldwin (fyrir miðju á myndinni) heimsótti skólann.


Viola Davis yndisleg

Margir frægir leikarar eru meðlimir The Actor Studio og þeir koma reglulega að heimsækja nemendur skólans.

„Bradley Cooper kom í fyrra og fyrir um tveimur vikum kom Alec Baldwin að spjalla við okkur. Það er rosalega skemmtilegt að það er sjónvarpsþáttur tekinn upp þar sem heitir Inside the Actors Studio. Þar er í raun verið að sjónvarpa master class með okkur nemendunum. Nokkrum sinnum á ári koma því áhugaverðir leikarar og spjalla við okkur í marga klukkutíma og við fáum að spyrja þau spjörunum úr. Fyrir jólin kom Viola Davis, hún var alveg yndisleg, svo inspírerandi og niðri á jörðinni. Hún talaði mjög tæpitungulaust. Jessica Chastain kom líka nýlega og allar leikkonurnar úr Girls.

Það er mjög gaman að fá að spjalla við þetta fólk, því manni finnst það vera hluti af einhverri Hollywood-útópíu sem maður er sjálfur ekki hluti af, en svo hittir maður þau og spjallar og þau eru bara fólk eins og ég og þú en sem hefur gengið mjög vel og verið duglegt.“

Í viðræðum við leikhóp

Anna María segir skólann hafa farið fram úr sínum ýtrustu væntingum og mælir heils hugar með honum. „Ég er búin að læra svo mikið og er með svo ótrúlega færa kennara. Leiklistar- og leikstjórnarkennararnir mínir eru frábærir húmoristar, góðar manneskjur og ofboðslega reyndir og hæfileikaríkir Þetta eru allt Actors Studio kanónur sem halda námskeið út um allan heim og vinna sem leikþjálfarar með heimsfrægum leikunum. Aðalleiklistarkennarinn minn heitir Susan Batson og vann alltaf með James Gandolfini, aðalleikaranum í The Sopranos. Hinn heitir Elizabeth Kemp og hún vinnur allt með Bradley Cooper. Þær eru ótrúlega klárar konur.“

Í sumar heldur Anna María heim til Íslands að vinna við kvikmyndagerð fyrir himinháum skólagjöldunum.

„Ég er samt engan veginn búin að sjúga í mig allt sem New York hefur upp á að bjóða leiklistarlega og stefni á að koma hingað aftur í haust. Ég er í viðræðum við mjög áhugaverða leikhópa um að fara í starfsnám hjá þeim. Ég er ekkert á leiðinni heim,“ segir Anna María leikkona og leikstjóri. „Framtíðin er spennandi en frekar óráðin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert