Höfnuðu rannsókn á hinsegin geni

Gleðigangan er ár hvert einn af stærstu viðburðunum í Reykjavík. …
Gleðigangan er ár hvert einn af stærstu viðburðunum í Reykjavík. Samtökin '78 samþykktu einróma á aðalfundi að hafna beiðni ÍE um samstarf vegna rannsóknar á samkynhneigð. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Íslensk erfðagreining hætti við erfðafræðirannsókn á samkynhneigð eftir að Samtökin '78 samþykktu einróma á aðalfundi sínum að hafna beiðni ÍE um samstarf vegna slíkrar rannsóknar. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í morgun og haft er eftir Maríu Helgu Guðmundsdóttur, formanna Samtakanna '78, að niðurstaða fundarins hafi verið að slík rannsókn stríði gegn markmiðum samtakanna.

Markmið samtakanna sé að standa vörð um hagsmuni og berjast fyrir réttindum hinsegin fólks. Yfirgnæfandi líkur séu hins vegar á að niðurstöður rannsóknar á borð við þessa yrðu notaðar gegn hinsegin fólki, þó að það eigi ekki við um Ísland.

Þá er haft eftir Kára Stefánssyni, forstjóra ÍE, að afstaða samtakanna þýði að ekkert verði af rannsókninni. „Þar sem þetta eru samtök sem hlúa að fólki sem hefur átt undir högg að sækja í íslensku samfélagi finnst mér alveg sjálfsagt að virða það. Við ráðumst í ekkert af þessari gerð gegn vilja samtakanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert