Ofbeldi í öllum fangelsum landsins

„Ég get staðfest að það hafa komið upp ofbeldismál í fangelsum landsins í gegnum tíðina. Það er mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að halda uppi lögum og reglum í fangelsunum og þurfum að passa að bregðast rétt við þegar slík mál koma upp meðal annars með því að kæra málin til lögreglu og taka á þeim innandyra með agaviðurlögum,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri aðspurður hvað sé til ráða til að draga úr ofbeldi sem á sér stað á Litla-Hrauni.

Spurður hvort þau hafi orðið vör við að fangar kæri ekki ofbeldi eða hótanir segist hann ekki geta tjáð sig um það en tekur fram að það er brugðist við ef vitneskja eða grunur leikur á að ofbeldi hafi átt sér stað. 

Fyrr í dag greindi mbl.is frá því að mikið of­beldi þrífst inni á Litla-Hrauni, samkvæmt niðurstöðu nýrr­ar rann­sókn­ar sem bygg­ir á viðtöl­um við fyrr­ver­andi fanga. 

Páll tekur fram að hann hafi ekki kynnt sér niðurstöðu ritgerðarinnar og segist því ekki geta tjáð sig um hana að öðru leyti en því sem hefur komið fram á mbl.is. 

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is

Ekki rétt að vera með myndavélar í klefum fanga

Þekkið þið þessi svokölluðu „blindspots“-svæði þar sem ekkert eftirlit er með myndavélum og fangar nota til að berja aðra og afhenda dóp utan klefa?

„Við bregðumst reglulega við ábendingum um þessi mál. En það er ljóst að það er ekki hægt að hafa eftirlit með öllum stöðum fangelsisins allan sólarhringinn, meðal annars ekki inni í klefum fanganna,“ segir Páll. Ekki er rétt að vera með myndavélar í klefum fanga því þeir eru ígildi heimilis þeirra. En samkvæmt reglum er öðrum föngum bannað að fara inn í annarra manna klefa vegna öryggisráðstafana.    

Þekkið þið þessar smyglleiðir sem eru nefndar, s.s. bílaþvottastöðina, girðinguna? Heimsóknirnar? Hvað er til ráða til að stöðva það?

„Það er tvennt sem við gerum, annars vegar að hafa mikið eftirlit. Hins vegar að draga úr eftirspurninni með því að bjóða upp á frekari meðferð fyrir þá sem vilja takast á við fíkn sína,“ segir Páll. Á Litla-Hrauni er pláss fyrir 11 manns á meðferðargangi, þar starfa tveir meðferðarfulltrúar auk annars heilbrigðisstarfsfólks í fangelsinu. Föngum sem vilja takast á við fíknina gefst kostur á að vera þar ef pláss er til staðar,“ segir Páll. Hann vildi ekki tjá sig að öðru leyti um smyglleiðirnar.

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Brynjar Gauti

Er nóg að hafa bara pláss fyrir 11 manns?

„Við myndum gjarnan vilja geta boðið upp á meiri meðferð fyrir okkar skjólstæðinga,“ segir Páll. Hann segir að til þess að svo yrði þyrfti að bjóða upp á þjónustu fleiri sálfræðinga, félagsráðgjafa og annars heilbrigðisstarfsfólks til að sinna föngum.

Hvernig er geðheilbrigðisaðstoð háttað? Hvað vantar upp á að slíkt sé í góðu horfi?

„Það er heilbrigðisþjónusta í öllum fangelsum landsins en við höfum ítrekað bent á að við viljum geta boðið upp á meiri sértæka þjónustu fyrir fanga,“ segir Páll.  

Eru fangar þar inni sem ættu að vera á geðdeild? 

„Það eru fangar sem eru vistaðir í fangelsinu sem glíma við mjög alvarleg andleg veikindi. Við myndum gjarnan vilja aðstoða það fólk meira,“ segir Páll og bendir á að það séu ekki allir sammála því að slíkir einstaklingar ættu að vera frekar á geðdeild. Þeir fangar sem eru í fangelsum landsins eru sakhæfir. Hann tekur fram að því fylgi verulegt álag bæði fyrir samfanga og starfsmenn að mikið andlega veikir einstaklingar eru í fangelsinu.  

Þrátt fyrir að föngum hafi fjölgað umtalsvert undanfarið á Íslandi, að sögn Páls, hefur stöðugildum sérfræðinga, t.d. sálfræðinga, ekki fjölgað í takt við þessa fjölgun. 

Endurkomutíðni sambærileg öðrum Norðurlöndum

Í ritgerðinni kemur fram að hér á landi sé frekar refsistefna en ekki betrun. Hver er þín skoðun á þessu? Hvað þarf að bæta svo að um betrun verði að ræða?  

„Á síðustu árum hefur vægi afplánunar utan lokaðra fangelsa aukist það er að segja í opnum fangelsum, rafrænu eftirliti og með samfélagsþjónustu. Þá hefur tími afplánunar á áfangaheimilum verið aukinn. Allir sem koma að þessum málaflokki eru sammála um að það eigi að loka fólk inni í lokuðu fangelsi í eins stuttan tíma og unnt er,“ segir Páll og bendir á að fjöldi rýma í opnum fangelsum hafi þrefaldast á síðustu 10 árum. Hann tekur fram að endurkomutíðni einstaklinga aftur í fangelsi á Íslandi sé sambærileg og á öðrum Norðurlöndum. „Sú staðreynd nái ekki alltaf í gegn í umræðu um fangelsismál,“ segir Páll.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert