Ekki tilefni til að flýta bólusetningum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vinnur nú í því að kortleggja mögulegt …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vinnur nú í því að kortleggja mögulegt mislingasmit.

„Það hafa ekki fleiri greinst en við erum að hafa upp á fólki víðs vegar um landið sem hefur hugsanlega komist í snertingu við barnið meðan það var veikt,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Greint var frá því að níu mánaða barn hefði smitast af mislingum meðan það dvaldist með fjöl­skyldu sinni í Taílandi. Barnið veikt­ist á þriðju­dag­inn fyr­ir viku og leitað var til bráðamót­töku Barna­spítala Hrings­ins á sunnu­dag. Ef fólk er ekki bólu­sett innan tveggja til þriggja daga frá smiti veikist það 12 dög­um eft­ir smit. 

„Eftir 2-3 daga þarf bara að fylgjast með viðkomandi, segja honum að taka því rólega svo hann sé ekki á flandri út um allt og láta lækna og heilbrigðiskerfið vita ef þau fara að veikjast til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort þetta séu mislingar eða ekki,“ segir Þórólfur. 

Óljós virkni fyrstu tólf mánuðina

Börn á Íslandi eru fyrst bólsett 18 mánaða gömul og aftur 12 ára gömul. Í bæði skipti er bólusetningarhlutfallið um 95%. Þórólfur segir að hægt sé að bólsetja börn fyrr en ekki sé tilefni til að breyta kerfinu í flýti. 

„Það er mismunandi eftir löndum hvort það séu 13 mánuðir, 15 eða 18 en maður getur ekki farið mikið undir 12 mánaða aldur, þá er óljóst hvort bóluefnið virki almennilega. Móðirin hefur verið með mótefni gegn mislingum sem fara yfir í barnið og það skemmir bólusetninguna. Mótefnin eru síðan horfin eftir 12 mánuði. Ef það kemur upp faraldur þá breyta menn til og fara neðar í aldri en það er engin ástæða til að hlaupa til handa og fóta og breyta því núna,“ segir Þórólfur. 

Samkvæmt upplýsingum á vef Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar dóu 134 þúsund manns úr mislingum árið 2015, eða 367 hvern einasta dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert