Keypti regnhlíf fyrir launin

Regnhlíf með sál. „Ég væri ekki til ef mamma hefði …
Regnhlíf með sál. „Ég væri ekki til ef mamma hefði ekki keypt þessa regnhlíf,“ segir Gunnar Þórólfsson um nær 80 ára gamla regnhlíf móður sinnar, sem Dúna heldur á og hefur passað vel upp á alla tíð. mbl.is/RAX

Þegar Guðrún Eyjólfsdóttir fermdist átti hún sér þann draum æðstan að verða leikkona eins og Rita Hayworth, sem var helsta átrúnaðargoð hennar á þeim tíma. Nær 80 árum síðar rættist draumurinn.

Í nýútgefnu árshátíðarmyndbandi hjúkrunarnema leikur Guðrún, eða Dúna eins og hún er gjarnan kölluð, nemanda sem er enn að bíða eftir einkunnunum, 70 árum eftir að prófum lauk, og segist ekki hafa þolinmæði til þess að bíða lengur. „Ég hef ekki séð myndbandið en tókst þetta ekki ágætlega?“ spyr hún og segir að tilviljun hafi ráðið þátttöku hennar. Hún sé í „ellimannakórnum“ á Grund og með henni sé meðal annars afi stúlku nokkurrar í hjúkrunarnámi. Móðir stúlkunnar sé læknir og hún komi stundum og syngi með þeim. „Við tölum auðvitað saman öllum stundum og eitt kvöldið bankaði stúlkan hjá mér og spurði hvort ég vildi gera henni greiða, að segja nokkur orð í mynd sem nemarnir væru að gera. Ég sagðist ekki vilja láta hafa mig að fífli en hún sagði það af og frá og sagði mér hvað ég ætti að gera og segja. Það fór allt í vitleysu svo ég sagði að ég myndi bara tala út frá mínu brjósti og þá gekk allt eins og í sögu.“ Hún leggur áherslu á að hún hafi alltaf látið allt flakka og átt auðvelt með að tala. „Ég geng stöðugt fram af börnunum mínum, en það eina sem gengur á öllum núna er höfuðið, hitt er orðið fúaspýta.“

Dúna hefur alla tíð átt heima í Vesturbænum, ólst upp með níu systkinum hjá efnalitlum foreldrum sínum í lítilli íbúð á Fálkagötu og síðar á Smyrilsvegi. Eiginmaður hennar var Þórólfur Meyvantsson, sem var sjómaður lengst af og lést fyrir nær fjórum árum, en þau eignuðust fimm börn. Hún sinnti lengi verslunarstörfum en þátttakan í myndbandinu var frumraun hennar á hvíta tjaldinu.

Kaflaskipti við fermingu

Þegar Dúna fermdist fékk hún hælaháa skó og saumuð var á hana kápa, en hún fékk kvenveski í fermingargjöf. Hún segir að það hafi kostað 18 krónur og þar sem hún væri fermd og þar með orðin dama vildi hún líka eignast regnhlíf og vera eins og Rita Hayworth. Á þessum árum var hún vinnukona og annaðist 85 ára gamla, fatlaða konu á Grandavegi. Fékk 35 kr. fyrir á mánuði. Hún segist hafa spurt móður sína hvort hún mætti kaupa regnhlíf þegar hún fengi næst útborgað. „„Hvað kostar hún, Dúna mín?“ spurði mamma. „33 krónur,“ svaraði ég. „Ekki held ég að þú sért almennileg, stúlka,“ sagði mamma þá og saup hveljur. En ég lét mér ekki segjast, fór í bæinn, keypti regnhlífina og kom heim með tvær krónur, en þá skilaði maður alltaf laununum sínum heim. Í kjölfarið bað ég guð í heila viku um rigningu svo ég kæmist á rúntinn í Austurstræti í fermingarkápunni, sem frænka mín saumaði, og hælaháu skónum með veskið og regnhlífina svo strákarnir í bílunum gætu séð mig. Þegar rigningin loks kom fórum við Dídí, vinkona mín, í bæinn. Við ösluðum á hælaháu skónum yfir alla Melana, þar sem ekkert var nema pollar og drulla, og þegar við gengum fyrir hornið á Reykjavíkurapóteki, tók rokið regnhlífina og ég stóð eftir með skaftið. Ég bað guð að hjálpa mér, hélt að ég þyrfti að flytja að heiman, en þegar ég kom aftur heim með leifarnar af regnhlífinni undir fermingarkápunni bar ég mig aumlega við Halla bróður og hann brást vel við, lofaði að bæta mér skaðann svo ég gæti áfram borgað með mér heim. Hann gerði það og þá fór ég beint niður í bæ og keypti aðra regnhlíf. Svona var ég óhlýðin og svo er verið að álasa unglingunum í dag!“

Dúna áréttar að þegar hún var fermd og þar með orðin dama hafi aðeins eitt komist að. „Ég ætlaði mér að verða leikkona eins og Rita Hayworth. En það fór alveg út um þúfur, þar til allt í einu núna að dyrnar hafa opnast. Þetta er kannski byrjunin á einhverju nýju? Ég vil hafa líf og fjör í kringum mig, jafnt hér á æskulýðsheimili Vesturbæjar sem annars staðar, og hver veit hvað gerist í framtíðinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert