Pawel vill nýja sessunauta á þingi

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert

„Það er löng hefð fyrir því í þinginu að draga um sæti í upphafi hvers þings. Ég neita því ekki að ég öfunda stundum þá þingmenn sem geta sest við hliðina á sínum samflokksmönnum og deilt upplýsingum hratt og fljótt á milli sín,“ segir Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, við störf þingsins á Alþingi í dag.

Pawel sagði að þetta fyrirkomulag þekktist ekki annars staðar og vissi að þetta vekti eftirtekt og stundum aðdáun í öðrum löndum. „Aðdáunin er þó ekki meiri en svo að kerfið hefur ekki verið tekið upp í löndum sem hafa heyrt af þessu,“ segir Pawel.

Hann vill að þingið prófi að raða þingmönnum í sæti eftir þingflokkum. „Við gætum prófað þetta í einn mánuð og ef það kæmi illa út þá gætum við kallað það martraðamánuðinn sem Pawel kom á. Að öðrum kosti gætum við séð hvort þetta sé eitthvað sem við gætum haldið okkur við,“ segir Pawel og fullyrti eftir frammíköll að hann kunni mjög vel við sessunaut sinn:

„Ég tek það fram að ég kann mjög vel að meta minn sessunaut. Hann er reyndar svo oft hérna uppi að ég fæ ekki mikið að ræða við hann,“ segir Pawel og þingmenn hlógu. Sessunautar hans eru Valgerður Gunnarsdóttir úr Sjálfstæðisflokknum og Kolbeinn Óttarsson Proppé úr VG.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert