Stefnt á að fluglest gangi árið 2025

Reiknað er með að farþegar sem fara um flugstöð Leifs …
Reiknað er með að farþegar sem fara um flugstöð Leifs Eiríkssonar muni nýta sér hraðlestina. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samningar hafa náðst við sveitarfélög á Suðurnesjum um skipulagsmál vegna fluglestarinnar sem áform eru um að muni ganga á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. „Við vinnum að sambærilegum samningum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og vonumst til að ná til lands fljótlega. Þetta er flókið mál og horfa þarf til margra þátta,“ segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar þróunarfélags.

Næsta skref 1,5 milljarðar króna

Á síðustu fjórum árum hafa verið lagðar um 300 milljónir króna í verkefnið. Næst verða lagðir í það 1,5 milljarðar króna sem myndu fara í skipulagsmál í samstarfi við sveitarfélögin, mat á umhverfisáhrifum og forhönnun. Dýrasti kostnaðarliðurinn yrði í jarðfræðirannsóknir sem nauðsynlegt er að fara í, að sögn Runólfs.   

Gæti mögulega tengst inn Borgarlínu

Stefnt er að því að fluglestin verði komin í notkun árið 2025. Hún gæti mögulega tengst inn á Borgarlínu sem er á svæðis­skipu­lagi sem sveit­ar­fé­lög­in á höfuðborg­ar­svæðinu samþykktu fyrir skömmu.      

Verkefnið var kynnt fyrir fulltrúum Viðreisnar á fundi í Reykjavík gær og greint frá næstu skrefum.

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar þróunarfélags
Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Fluglestarinnar þróunarfélags mbl.is/Ófeigur

Fjárfesting upp á 100 milljarða króna

Verkefnið er fjármagnað af einkaaðilum og erlendum fjárfestum og er einkaframkvæmd. Engin áform eru uppi um að ríkið taki þátt í verkefninu og hefur það ekki fengið neina ríkisstyrki, að sögn Runólfs sem segir verkefnið vera arðbært. Fjárfestingin verður í heildina um 100 milljarða króna. 

Stærsti einstaki hluthafinn er fyrirtækið Per Aarsleff AS sem er eitt stærsta verktakafyrirtæki Danmerkur og leiðandi í þróun og byggingu lesta. 

Engin íslensk lög til um lestarsamgöngur 

Margir lausir endar eru til staðar sem þarf að hnýta, til dæmis eru engin lög um lestarsamgöngur til í íslenskum lögum. Runólfur segir að stjórnvöld verði að bregðast við þessu og setja lög um slíkt. Í því samhengi bendir hann á að ákjósanlegast sé að líta til sambærilegra laga um lestarkerfi sem er í Noregi.

Stefnt er að því að hraðlest gangi frá Keflavíkurflugvelli til …
Stefnt er að því að hraðlest gangi frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert