„Það þarf lítið til“

Mjög óstöðug snjóalög hafa sést á Tröllaskaga og norðarnverðum Vestfjörðum síðustu tvær vikurnar. Að sögn Sveins Brynjólfssonar á snjóflóðavakt Veðurstofunnar er það eðlilegt fyrir árstímann en í gær lentu þrír menn í snjóflóði sem féll í Botnsdal við Súgandafjörð. Einn þeirra slasaðist og var fluttur á sjúkrahús.

Sveinn hvetur fólk til þess að sýna varúð á ferðum sínum um fjalllendið. „Það hafa fallið mjög mörg flóð síðustu daga hérna á Tröllaskaga og á Vestfjörðum og sum býsna breið. Bara í gær voru þrjú snjóflóð af mannavöldum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður hvort það hafi verið að falla flóð á öðrum svæðum nefnir Sveinn sem dæmi að í Bláfjöllum hafi fallið minniháttar flóð norðan við skíðasvæðið um helgina þannig að ástandið sé greinilega víðar.

Hann segir ástandið þó eðlilegt fyrir þennan árstíma. „Þessi óstöðugleiki kemur og fer. Hér á Tröllaskaga hafa verið að falla snjóflóð þó að það hafi ekki bætt mikið á snjó. Þetta er viðkvæmt og það þarf lítið til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert