Atvinnuleysi í febrúar 3,2%

Atvinnuleysi í febrúar mældist 3,2%.
Atvinnuleysi í febrúar mældist 3,2%. mbl.is/Rax

Atvinnuleysi í febrúar var 3,2% samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Að jafnaði voru 199.300 manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði þann mánuð, sem jafngildir 82,8% atvinnuþátttöku. Af þeim voru 192.900 starfandi og 6.500 án vinnu og í atvinnuleit.

Hlutfall starfandi af mannfjölda var 80,1% og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli var 3,2% að því er segir í fréttatilkynningu Hagstofu. Þá sýnir samanburður mælinga fyrir febrúar í fyrra að atvinnuþátttaka jókst um 0,7 prósentustig.

Fjöldi starfandi jókst um 7.800 manns og atvinnulausum fækkaði um 600 manns.

Atvinnuleysi stendur í stað

Íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta, en þegar horft er til síðustu sex mánaða þá sýnir leitni vinnuaflstalna að atvinnuleysi hefur nánast staðið í stað. Á síðustu tólf mánuðum hefur það hins vegar lækkað lítillega eða um 0,2 prósentustig.

Hlutfall starfandi síðustu sex mánuði hefur einnig lækkað lítillega eða um 0,2 stig, en aftur á móti aukist um 0,6 stig þegar horft er til þróunar síðustu tólf mánaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert