Búast við allt að 30-35 m/s hviðum

Búast má við hvassviðri undir Hafnarfjalli og víðar á landinu …
Búast má við hvassviðri undir Hafnarfjalli og víðar á landinu í dag. Rax / Ragnar Axelsson

Búast má við vindhviðum allt að 30 m/s á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli fram eftir degi í dag. Þá má búast við stormi eða roki og vindhviðum allt að 35 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi og víðar á Norðvesturlandi fram eftir degi. Í kvöld snýst svo í hvassa suðvestanátt með éljum og takmörkuðu skyggni til fjalla á vestanverðu landinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Það er mjög hvasst á Sandskeiði og þar eru hálkublettir. Snjóþekja og skafrenningur er á Hellisheiði og á Mosfellsheiði. Snjóþekja er einnig á flestum leiðum á Suðurlandi, allt austur að Hvolsvelli. Þungfært er á Krísuvíkurvegi. Hálka og snjókoma er á Reynisfjalli.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á vegum en snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku. Holtavörðuheiði er lokuð tímabundið en þar er nú slæmt veður. Hvasst á norðanverðu Snæfellsnesi. Ófært er á Fróðárheiði.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja eru á vegum á Vestfjörðum  og víða skafrenningur á fjallvegum.

Það er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Norðurlandi vestra en á Norðausturlandi er autt á köflum eða hálkublettir. Skafrenningur er á  Öxnadalsheiði, Víkurskarði og á vegum í kringum Mývatn.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálkublettir eða snjóþekja er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert