Farbann vegna meintra skattabrota

Húsnæði embættis héraðssaksóknara.
Húsnæði embættis héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður hefur verið úrskurðaður í farbann til 14. apríl vegna rannsóknar héraðssaksóknara á meintu skattalagabroti hans. Hefur embættið kyrrsett eignir í eigu mannsins, móður hans og fyrirtækis sem er í rannsókn upp á um 180 milljónir króna. Hæstiréttur staðfesti í gær úrskurð héraðsdóms um farbann yfir manninum, en talið er að hann muni reyna að komast úr landi að öðrum kosti.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn sé til rannsóknar vegna skattskila sinna árin 2012-2016, auk skattskila tveggja fyrirtækja sem hann er talinn hafa verið daglegur stjórnandi. Þá sé einnig grunur um að hann sé raunverulegur eigandi annars félagsins, en það sé skráð á móður hans.

Skattrannsóknarstjóra barst ábending um að gefnir hefðu verið út tilhæfulausir reikningar sem hefðu verið gjaldfærðir í rekstri annars félagsins að fjárhæð 161 milljón, en sá sem benti á meint brot var sjálfur útgefandi sölureikninganna.

Samkvæmt framburði ábendingaraðila muni hann hafa fengið 10% af hverjum reikningi sem hann hafi gefið út á hendur fyrirtækinu, en hann hafi svo farið í bankann og tekið 90% út í reiðufé og látið rekstrarstjórann fá þá upphæð. Þá sendi ábendingaraðilinn einnig fjármuni á sambýliskonu mannsins og systur hennar, auk þess að gefa út svipaða reikninga fyrir hitt félagið.

Saksóknari rannsakar nú hvort að maðurinn hafi með þessu gjaldfært rekstrarkostnað og talið fram innskatt á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga. Þá sé grunur um að laun mannsins hafi einungis að litlum hluta verið gefin upp til skatts.

Eignir mannsins að fjárhæð 65 milljónir hafa verið kyrrsettar sem og 16,4 milljónir hjá móður hans. Hjá fyrirtækinu sem um ræðir hafa einnig verið kyrrsettar 98 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert