Gamalt skólahús setur svip á sveitina

Reisuleg bygging. Gamla skólahúsið, sem áður var Húsmæðraskólinn á Laugum …
Reisuleg bygging. Gamla skólahúsið, sem áður var Húsmæðraskólinn á Laugum í Þingeyjarsveit, setur sterkan svip á umhverfið. Skólastarf hófst í húsinu árið 1929. mbl.is/Atli Vigfússon

Burstirnar tvær á Húsmæðraskólanum á Laugum í Þingeyjarsveit hafa sett svip sinn á skólastaðinn í nærfellt 90 ár. Innandyra er mikið af gömlum munum úr eigu skólans frá því hann starfaði og öll herbergi eru full af menningu og minningum.

Kvenfélagasamband S-Þingeyinga fékk húsið og allt sem í því er til eignar árið 1988, en skólinn var formlega lagður niður árið 1986.

Eftir að Húsmæðraskólinn á Laugum var lagður niður var svokölluð rekstrarnefnd sett á fót sem var ætlað að halda húsinu við og standa vörð um þá merkilegu sögu sem býr í skólahúsinu. Nú eru liðin nær þrjátíu ár frá stofnun nefndarinnar og húsið hefur þurft sitt viðhald. Öllum konunum þykir vænt um skólann og þær eru staðráðnar í að halda honum vel við, þannig að sómi sé að, þrátt fyrir þröngan fjárhag.
rKonurnar sem sáu um kaffiveitingarnar á samverustundinni. F.v. Karen Ólína …
rKonurnar sem sáu um kaffiveitingarnar á samverustundinni. F.v. Karen Ólína Hannesdóttir, Elín Hólmfríður Gunnlaugsdóttir og Helga María Ólafsdóttir. mbl.is/Atli Vigfússon


„Mér finnst þetta mjög mikils virði fyrir okkur konurnar. Við hittumst hér úr mörgum kvenfélögum og þetta eflir tilfinningu okkar fyrir þessu húsi. Við finnum hvað þetta er mikill menningararfur sem við höfum í höndunum. Ég er alin upp á Laugum og húsmæðraskólinn er mér mjög kær þó svo að ég hafi ekki stundað nám í honum.“

Þetta segir Aðalbjörg Pálsdóttir frá Vallakoti í Reykjadal, en hún var, ásamt fleiri konum, stödd á samverustund Kvenfélagssambands S-Þing. um helgina. Hefð er fyrir þessari samverustund og hafa kvenfélagskonur hist á hverju ári í skólanum og átt góðan dag þar sem unnið hefur verið við hannyrðir og hönnun, auk þess að spjalla saman og njóta veitinga.

Athafnakonur. F.v. Aðalbjörg Pálsdóttir frá Vallakoti með Söru Hólm, fyrrverandi …
Athafnakonur. F.v. Aðalbjörg Pálsdóttir frá Vallakoti með Söru Hólm, fyrrverandi formanni Kvenfélagasambands S-Þing., og Guðlaugu Þorsteinsdóttur sem nú situr í rekstrarnefnd skólans. mbl.is/Atli Vigfússon


Mikið fjármagn þarf til framkvæmda

Aðalbjörg átti sæti í fyrstu rekstrarnefndinni á sínum tíma. Hún segir að fjáröflun hafi verið hlutverk nefndarinnar og tilgangurinn með samverustundinni í skólanum hafi verið að afla fjár. Rekstrarnefndin tók að sér mikla vinnu og vildi endurvekja gamla saumahefð í skólanum. Konurnar fengu mikið af lituðu bandi sem þær flokkuðu og seldu. Þá fundu þær gömul mynstur sem höfðu verið notuð í skólanum og gamla púða. Þær tóku til garn við hvert mynstur og keyptu java sem þær sniðu niður.

Mikið var saumað af augnsaumspúðum og borðdúkum með skýjafari og tilheyrði það saumahefðinni. Í fyrstu var samverustundin heill dagur sem byrjaði um morguninn og var seldur hádegismatur til þess að afla fjár. Þá var einnig kaffisala, auk efnissölunnar. En til þess að viðhalda heilum skóla þarf meira til og nýlega var skipt um þak á báðum burstunum sem kostaði Kvenfélagasambandi S-Þing. mikla peninga. Þá er ætlunin að mála að utan í sumar og gera við steypuskemmdir.

Herbergi fyrstu skólastýrunnar stendur óhreyft með öllum innanstokksmunum; málverkum og …
Herbergi fyrstu skólastýrunnar stendur óhreyft með öllum innanstokksmunum; málverkum og hannyrðum og öðrum merkilegum gripum. mbl.is/Atli Vigfússon


Skemmtilegt skólastarf

Skólahald í byggingunni hófst haustið 1929 og það var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, sem gerði lokateikningu af skólanum. Baráttan um byggingu skólans hafði staðið yfir í mörg ár og þótti þetta mikill áfangi. Skólinn hét þá Húsmæðraskóli Þingeyinga og fyrsta skólastýran var Kristjana Pétursdóttir frá Gautlöndum. Þegar hún kom að skólanum vantaði allan húsbúnað og kennslugögn. Réði hún því miklu hvernig var að málum staðið og hafði til hliðsjónar teikningar eftir Ríkharð Jónsson myndhöggvara, en hann hafði unni verðlaunasamkeppni sem Heimilisiðnaðarfélag Norðurlands hafði efnt til undir stjórn Halldóru Bjarnadóttur.

Skólinn var seinna stækkaður og viðbygging var að nokkru tekin í notkun árin 1948-1949. Á árunum 1950-1970 voru að meðaltali rúmlega 30 nemendur hvern vetur og skemmtilegt skólastarf. Eftir það varð snögg breyting á viðhorfi fólks til húsmæðraskólanna og fór aðsókn stórminnkandi. Þegar skólinn hætti var yngra húsið lagt undir starfsemi sem nú er Framhaldsskólinn á Laugum.

Handverk og hönnun. Nælur og fleira eftir Guðlaugu Þorsteinsdóttur og …
Handverk og hönnun. Nælur og fleira eftir Guðlaugu Þorsteinsdóttur og Ragnheiði Árnadóttur voru til sýnis á samverustundinni. mbl.is/Atli Vigfússon


Viðhald verður alltaf nauðsynlegt

„Mér finnst að Kvenfélagasamband S-Þing. hafi staðið vel að verki hvað varðar viðhald á húsinu,“ segir Aðalbjörg. Það er, að hennar mati, fjarlægur draumur að hafa opið á sumrin einhverja daga í viku til þess að sýna ferðafólki þá merkilegu muni sem í húsinu eru og kynna fyrir þeim minningar um skólahald á staðnum. Það myndi kosta starfsmann sem þyrfti að vera við og leiðbeina. Hitt hefur líka komið til tals að leigja herbergi eða útbúa listamannsíbúð sem væri leigð út.

Hins vegar er það líka vandi, því það er ekki sama hvernig gengið er um þau húsakynni sem þarna eru eða þá muni sem húsið geymir. Ekki má breyta herbergi Kristjönu skólastýru sem stendur óhreyft, ekki heldur Matthildarstofu sem búið er að leggja mikla vinnu í og geymir mikið af jurtalituðu bandi Matthildar Halldórsdóttur jurtalitunarkonu frá Garði í Aðaldal. Einhverjir peningar þurfa samt að koma inn og til þess hafa m.a. verið haldin námskeið. Þá voru stofnaðir sjóðir eins og t.d. stólasjóður o.fl. Einnig hefur verið leitað styrkja hjá öðrum aðilum og nú síðast hjá Minjastofnun. Gömul hús þurfa stöðugt viðhald og það er nauðsynlegt.

Fallegur saumur prýðir veggi skólans mjög víða. Jurtalitað band var …
Fallegur saumur prýðir veggi skólans mjög víða. Jurtalitað band var mikið notað í útsaum og alls konar hannyrðir. mbl.is/Atli Vigfússon


„Kvenfélögin í dag eru yndisleg,“ segir Aðalbjörg og brosir. „Nú eru allt önnur viðhorf heldur en þegar ég gekk í kvenfélag. Ungar konur eru með skemmtilegar hugmyndir og þær vilja læra af okkur gömlu konunum. Við þurfum að hugsa um hvað við getum gefið af okkur og hvað kvenfélögin geta gefið okkur. Kvenfélögin þurfa að vera í sífelldri þróun og við eldri konurnar megum ekki vera of íhaldssamar. Þjónusta kvenfélaganna er unnin af fórnfýsi og konurnar hafa þá hugsun að skila samfélaginu því sem það hefur veitt okkur,“ segir hún og er mjög bjartsýn á að fallegu burstirnar á Húsmæðraskólanum á Laugum eigi eftir að standa lengi og skólahúsið eigi eftir setja svip á sveitina um ókomna tíð á marga vegu.

Þær vefa í lund sína ljósið sem logar við nótt og ís

Herbergi fyrstu skólastýrunnar, Kristjönu Pétursdóttur frá Gautlöndum, er varðveitt með öllum innanstokksmunum frá því að hún lést 1946. Hún saumaði flest það sem saumað var þar inni og m.a. veggteppi í lokrekkjunni með kvæði Huldu í rammanum um myndina:

Þær vita að vorið kemur,
og vefa í dúk og bönd,
daganna rós og reini,
og regnblá sumarlönd.

Þær vefa í lund sína ljósið,
sem logar við nótt og ís,
lauf sem und klakanum lifir,
lind, sem að aldrei frýs.

Í herberginu er rúmteppi eftir Helgu Sigurjónsdóttur frá Miðhvammi í Aðaldal. Hún litaði togbandið sjálf og heklaði teppið. Þá eru í herberginu borðstofuhúsgögn o.fl. og málverk úr Mývatnssveit eftir Kristínu Jónsdóttur. Þar er einnig skápur eftir Halldór Víglundsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert