Hvassviðri og stormur næstu daga

Búast má við hvassviðri eða stormi á landinu næstu daga að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar. Skiptast munu á sunnanátt með rigningu og hlýindum annars vegar og hins vegar svalari suðvestanátt með éljum eða skúrum.

Í dag verður sunnanátt 15-23 m/s. Snjókoma eða slydda í fyrstu, en síðar rigning. Hiti verður á bilinu 3 til 8 stig. Úrkomuminna verður norðaustan til á landinu. Í kvöld færist síðan yfir í suðvestanátt 18-25 m/s með éljum eða skúrum og kólnar.  

Það dregur síðan úr vindi og úrkomu á morgun, en gengur í sunnanhvassviðri undir kvöldið með rigningu og súld og hlýnar aftur.

Eins og svo oft í þessum vindáttum verður væntanlega úrkomulítið norðaustan- og austanlands, en þar gæti hiti farið vel yfir 10 stigin í hnjúkaþey á laugardagsmorgun.

Veðurútlit er síðan skárra fyrir sunnudag og horfur á veðurblíðu í byrjun næstu viku.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert