„Þyngra en tárum taki“

Kolbeinn Óttarsson Proppé.
Kolbeinn Óttarsson Proppé. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tekist var á um samgönguáætlun á Alþingi í dag en þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu mikilli óánægju með niðurskurð á þeirri áætlun sem samþykkt var á þingi í október síðastliðnum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður VG, var málshefjandi og Jón Gunnarsson samgönguráðherra var til andsvara. „Það hvernig mál hafa skipast varðandi samgönguáætlun er eiginlega þyngra en tárum taki,“ sagði Kolbeinn.

„Samgönguáætlun var ekki samþykkt út í bláinn og allt of lengi hefur fjármuni skort í vegakerfið,“ bætti Kolbeinn við og spurði hvort innviðauppbygging hefði ekki verið tískuorð síðustu kosningabaráttu.

Hann sagði að allt í einu eftir kosningar hefðu allt í einu ekki verið til peningar í það sem hafði áður verið lofað. „Verður fjármögnun samgönguáætlunar tryggð í væntanlegri fjármálastefnu? Hyggst ráðherra fjármagna samgönguáætlun, sem hann samþykkti sjálfur í október, til fulls?“ spurði Kolbeinn.

Jón Gunnarsson.
Jón Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sama krónan er ekki notuð tvisvar

„Það er ekki ráðherra að fjármagna verkefni, það er ráðherra að framkvæma. Menn geta velt sér endalaust upp úr því að það hafi ekki verið fjármögnuð samgönguáætlun sem var unnin í október. Það er alveg rétt og hefur ekki farið framhjá neinum,“ sagði Jón.

Hann sagði að á þeim tíma hefðu menn haft miklar væntingar til þess sem yrði til ráðstöfunar á þessu ári. „Síðan þegar þingið settist yfir það þá voru áherslurnar þar sem við þekkjum öll í þessum sal; á heilbrigðismál og velferðarmál,“ sagði Jón. „Sama krónan er ekki notuð tvisvar sinnum.“

Hann sagði að bætt hefði verið við 4.600 milljónum í samgöngumál frá fyrra ári og hann sagðist gera sér vonir um að bætt yrði við þá tölu á þessu ári. 

„Við erum með nýlega samgönguáætlun og höfum forgangsraðað í því sem við höfum til ráðstöfunar í ráðuneytinu innan hennar. Hún er ekki marklaust plagg,“ sagði Jón og bætti við að vinna við nýja samgönguáætlun væri hafin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert