Vilja síst selja Landsbankann

Íslendingar eru síst hlynntir því að ríkið selji Landsbankann.
Íslendingar eru síst hlynntir því að ríkið selji Landsbankann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 30% Íslendinga eru hlynntir því að ríkið selji hlut sinn í Arion banka samanborið við 24% sem töldu rétt að ríkið seldi hlut sinn í Íslandsbanka. Aðeins 13% voru aftur á móti hlynntir því að selja hlut ríkisins í Landsbankanum. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem framkvæmd var af Zenter rannsókna dagana 1. til 16. mars.

Íslendingar eru frekar andvígir því að selja hlut ríkisins í bönkunum en 46% eru andvígir því að selja hlut ríkisins í Arion banka og 24% sögðust hvorki hlynntir né andvígir því. Sem fyrr segir voru 30% hlynntir því að selja hlutinn.

49% aðspurðra sögðust andvígir að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka. 24% sögðust hvorki andvígir eða hlynntir því go 27% voru hlynnt þeirri sölu.

Flestir voru andvígir því að selja hlut ríkisins í Landsbankanum, en 67% sögðust því andvígir. 21% voru hvorki hlynntir né andvígir sölunni og aðeins 13% voru hlynntir þeirri sölu.

Nokkur munur var á svörum eftir samfélagshópum, en fólk á höfuðborgarsvæðinu er marktækt hlynntari því að ríkið selji hlut sinn í öllum bönkunum. Einnig eru konur marktækt hlynntari því að ríkið selji hlut sinn í Landsbankanum en karlar.

Könnunin var framkvæmd sem netkönnun meðal könnunarhóps Zenter. Svarfjöldi var 1.176 einstaklingar og svarhlutfall var 51%. Vikmörk eru á bilinu 2,1 til 2,9%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert