15 mánaða fangelsi fyrir fjölda brota

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Ungur maður var í gær dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta 15 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot sem hann framdi á um tveggja ára tímabili. Brotin voru framin á árunum 2014-2016 þegar pilturinn var aðeins 16 til 18 ára gamall. Meðal annars er maðurinn ungi dæmdur fyrir innbrot, þjófnað og eignaspjöll auk vopnalagabrota, hótanir og þrjár sérlega hættulegar líkamsárásir.

Dómurinn samanstendur af þó nokkuð mörgum ákæruliðum gegn piltinum auk annars manns sem einnig var ákærður í málinu, þó fyrir færri brot.

Meðal þess sem maðurinn hlýtur dóm fyrir eru nokkur innbrot og þjófnaður úr bifreiðum og verslunum, innbrot í Þjóðleikhúsið, þaðan sem hann hafði á brott tvær fartölvur, og innbrot í frístundaheimili á höfuðborgarsvæðinu. Þaðan hafði maðurinn á brott með sér þýfi að verðmæti 355.556 kr. að því er segir í dómnum auk þess að hafa valdið eignaspjöllum. Þá er hann fundin sekur um vopnalagabrot með því að hafa haft fjaðrahníf í vörslum sínum á almannafæri svo fátt eitt sé nefnt.

Notaði tréspítu, hamar og grjót sem barefli

Þá var maðurinn ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás og eignaspjöll, með því að hafa ráðist á einstakling í Garðabæ og slegið hann í höfuðið með tréspýtu sem brotnaði við höggið. Einnig var hann ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ráðist að manni með ofbeldi og slegið hann í ennið með tæplega 500 gramma þungu grjóti, með þeim afleiðingum að sá er varð fyrir högginu hlaut skurð á ennið sem sauma þurfti saman.

Loks hlaut maðurinn ungi dóm fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa ráðist á einstakling sem reyndi að stöðva för hans eftir innbrotið í Þjóðleikhúsið, hótað hann viðkomandi lífláti og sló ítrekað með hamri í höfuðið og hendur, með þeim afleiðingum að viðkomandi hlaut tvo skurði á höfði.

Tillit tekið til ungs aldurs

Sem fyrr segir var pilturinn á aldrinum 16 til 18 ára er brotin voru framin og hefur hann ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Til þessa leit dómurinn við ákvörðun refsingar auk þess hve langt er um liðið frá sumum brotanna og þess að pilturinn játaði brot sín skýlaust. Þá var jafnframt litið til alvarleika brotanna og fjölda þeirra en líkt og fyrr segir eru þrjár sérstaklega hættulegar líkamsárásir meðal brotanna sem hann framdi. Þykir mildi að ekki fór verr að því er segir í dómnum.

12 mánuðir refsingarinnar eru skilorðsbundnir og sá hluti hennar falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins. Auk fangelsisdómsins verði gerðir upptækir tveir bakpokar, tvær grímur, hnífar og töng auk 99 taflna af fíkniefninu MDMA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert