Áreitti stjúpdætur kynferðislega

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni gegn tveimur stjúpdætrum sínum  árið 2014.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa brotið gegn annarri dótturinni á heimili þeirra að minnsta kosti fimm sinnum. Hann var ákærður fyrir að hafa „áreitt hana kynferðislega með því að káfa, bæði innan og utan klæða, á maga og rassi stúlkunnar og utanklæða á brjóstum hennar auk þess sem ákærði kyssti háls hennar og setti tær hennar í munn sér,“ að því er kemur fram í dómnum.

Gagnvart hinni dótturinni var hann ákærður fyrir að hafa á heimili þeirra „áreitt hana kynferðislega með því að hafa farið með hendi inn fyrir bol sem stúlkunnar og strokið yfir brjóst hennar utan á brjóstahaldara.“ Gegn sömu stúlku var hann ákærður fyrir að hafa á ferðalagi með fjölskyldunni „í rúmi sem móðir hennar og kærði gistu í, sett hendi sína á beran maga hennar og káfað á brjóstum hennar innanklæða“.

Skýlaus játning og sálfræðimeðferð

Í dómnum kemur fram að við ákvörðun refsingarinnar hafi verið litið til skýlausrar játningar ákærða bæði fyrir dómi og á rannsóknarstigi og að hann hafi ekki áður verið fundinn sekur um refsiverða háttsemi.

„Til refsilækkunar horfir jafnframt að ákærði átti frumkvæði að því að greina frá brotum sínum og að leita sér aðstoðar hjá sálfræðingi. Á öllum stigum máls hefur hann verið samvinnufús, sett hagsmuni brotaþola og móður þeirra í forgang og sýnt iðrun. Þá flutti hann strax út af heimilinu,“ segir í dómnum.

Þar kemur einnig fram að staðfest hafi verið í ítarlegu vottorði sálfræðings að maðurinn hafi sótt 19 sálfræðitíma. „Var það einlægur vilji hans að vernda stúlkurnar fyrir frekari skaða og öðlast innsæi í eigin hegðun. Áframhaldandi samskipti við mæðgurnar var í fullri samvinnu við þær, meðferðaraðila stúlknanna og sálfræðing ákærða.“

Einnig segir í dómnum að til refsiþyngingar horfi að maðurinn hafi brotið gróflega gegn trúnaðartrausti brotaþola og misnotaði aðstöðumun í aldri og þroska gagnvart þeim.Hann hafi brotið ítrekað gegn þeim áður en hann lét af háttsemi sinni. Brotin séu til þess fallin að valda brotaþolum miska og séu tengslin á milli þeirra og ákærða til þess fallin að valda auknum miska.

„Eins og fram kemur í sálfræðivottorði er afar fágætt að sá sem gerst hefur sekur um kynferðisbrot fylgi málum eftir með þeim hætti sem ákærði hefur gert. Telur dómurinn rétt að hann njóti góðs af því við ákvörðun refsingar eins og áður getur.“

Í dómnum kemur fram að maðurinn og móðir stúlknanna hafa tekið upp sambúð að nýju.

Auk tíu mánaða skilorðsbundins dóm, sem fellur niður eftir tvö ár, var manninum gert að sækja stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi ekki sjaldnar en þrisvar sinnum á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert