„Ekki boðlegt fyrir heilbrigðisstofnun“

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er til húsa við Háleitisbraut 1.
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er til húsa við Háleitisbraut 1. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er orðið mjög svo vandræðalegt ástand satt að segja,“ segir Kristján Sverrisson, forstjóri Heyrnar og talmeinastöðvar Íslands í samtali við mbl.is. HTÍ er til húsa á 4. hæð í Valhöll við Háaleitisbraut 1 en að sögn Kristjáns er húsnæðið löngu sprungið undan starfseminni og ástandið óviðunandi.

„Þetta er bara ekki boðlegt fyrir heilbrigðisstofnun, hreinlega. Að vera þarna uppi á fjórðu hæð í húsi sem að stenst eiginlega engar reglugerðir um aðgengi eða öryggi eða annað,“ útskýrir Kristján og bætir við að húsnæðið sé einfaldlega of þröngt fyrir starfsemina og aðgengismál með versta móti.

Bera gamalmenni milli hæða þegar lyftan bilar

Á heimasíðu HTÍ hefur verið vakin athygli á aðstöðunni en þar má meðal annars sjá myndir af þröngum göngum, litlum meðferðarherbergjum og lyftu sem er of lítil fyrir nýrri og fyrirferðarmeiri hjólastóla. Þar er jafnframt greint frá því hvernig forstjóri og starfsmaður HTÍ þurftu að bera aldraða konu niður af 4.hæð við þær aðstæður þegar lyftan í húsinu hafði verið biluð í rúma klukkustund.

Ljósmynd/HTÍ

Þá hafi gamall maður á níræðisaldri ekki viljað missa af tíma hjá heyrnarfræðingi og ákveðið að klífa stigana upp á 4.hæð. Starfsmenn fundu hann nær örmagna í stiganum og báru hann upp síðasta spölinn. Þá nefnir Kristján annað tilfelli sem varð fyrir ekki nema hálfum mánuði síðan þegar maður hné niður uppi á fjórðu hæð og kalla þurfti til sjúkraflutningamenn. „Og þeir voru nú ekki par ánægðir þegar þeir sáu það að þeir komu ekki sjúkrabörum í lyftuna og sáu fram á það að þurfa að halda á manninum niður stigagang í þungum sjúkrabörum,“ útskýrir Kristján.

Hjólastólar af stærri gerðinni komast ekki inn í lyftuna sem …
Hjólastólar af stærri gerðinni komast ekki inn í lyftuna sem er aðeins 100 x 135 cm að innanmáli og hurðarop er 80 cm. Þegar sjúklingi í slíkum hjólastól er komið í lyftuna þurfa aðstandendur að hlaupa upp á 4.hæð til að taka á móti viðkomandi því að fylgdarfólk rúmast ekki í lyftunni í sömu ferð. Ljósmynd/HTÍ

Engin loftræsting né pláss fyrir aðstandendur

„Við fáum mikið af fjölskyldum og foreldrum með börn og fatlað fólk með túlka jafnvel og aðstoðarfólk og flestar skrifstofur taka ekki nema tvo, í besta falli þrjár manneskjur,“ útskýrir Kristján. Þá taki meðferðir hjá heyrnarfræðingum allt upp í klukkustund þar sem ekki er hægt að opna glugga þar sem það raskar hljóðeinangrun. „Þá getur þú ímyndað þér hvernig loftleysi og annað er orðið.“

Ljósmynd/HTÍ

Kristján hefur starfað hjá Heyrnar- og talmenastöðinni í um þrjú og hálft ár og kveðst hann hafa reynt frá því hann hóf störf að vekja athygli stjórnvalda á vandanum. Kveðst hann fullviss um að það hafi forverar hans gert einnig. „Ég er búinn að vera stöðugt að síðan ég tók við,“ segir Kristján, „dregið mann og annan, ráðherra og ráðuneytisfólk þarna inn og um gangana og þeir eru allir sammála um það að þeir hafi ekki komið inn í ríkisstofnun sem sé jafn illa búið að,“ bætir hann við. Aftur á móti hiksti kerfið þegar kemur að úrlausnum.

Mannekla og langir biðlistar

Segir hann ljóst að þörf sé á nýju húsnæði, ekki dugi til að gera úrbætur á þeim stað þar sem starfsemin er nú til húsa. „Það er ekki nokkur leið að við getum gert neitt við þetta,“ segir Kristján. „Við erum dreifð á tvær hæðir,- og reyndar í algjöru neyðarástandi núna þá leigði ég viðbótarskrifstofu niðri á annarri hæð, inni í húsnæði Sjálfstæðisflokksins sem er auðvitað leigusalinn.“

Segir hann eigendur af vilja gerða til að reyna að bjarga því sem hægt sé að bjarga en húsið sé troðfullt og þar sé ekki lengur hægt að hafa starfsemina. „Þetta var ágætt fyrir 37-38 árum en núna hefur bara heimurinn breyst dálítið,“ bætir hann við.
Í ofanálag séu biðlistar sífellt að lengjast og skortur er á starfsfólki, til viðbótar við húsnæðisskortinn. Staðan geri það af verkum að stofnunin geti nánast ekki sinnt sínu lögbundna hlutverki að sögn Kristjáns sem vonast þó til þess að geta horft bjartari augum inn í framtíðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert