Fangaverðir með réttarstöðu sakbornings

Fjórir fangaverðir hafa réttarstöðu sakbornings vegna atviks á Litla-Hrauni í byrjun árs sem er til rannsóknar hjá lögreglunni á Selfossi.

Fangelsismálastofnun tilkynnti málið til lögreglu, að því er kemur fram í frétt Rúv.

Þar er vitnað í Odd Árnason, yfirlögregluþjón, sem segir að einn fangavarðanna hafi réttarstöðu sakbornings vegna framgöngu sinnar við fanga sem hafði kveikt í fangaklefa sínum.

Hinir þrír hafa réttarstöðu sakbornings vegna rannsóknar lögreglu á því hvort þeir hafi brotið gegn starfsskyldum sínum með því að tilkynna ekki um málið til sinna yfirmanna.

Einn fangavarðanna hefur verið leystur frá störfum, að því er Rúv greinir frá.

Atvikið náðist á upptöku, að sögn Odds, sem bætir við að rannsókn málsins sé á lokametrunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert