Fjölhæfur fastagestur á RÚV

Stefán hefur verið keppandi í öllum vinsælustu sjónvarpskeppnum landsins.
Stefán hefur verið keppandi í öllum vinsælustu sjónvarpskeppnum landsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þúsundþjalasmiðurinn Stefán Hannesson er tíður gestur á sjónvarpsskjám landsmanna og hefur á undanförnum árum tekið þátt í nokkrum af þekktustu sjónvarpsþáttum landsins. Hann tók þátt í Gettu betur með liði Fjölbrautaskólans á Suðurlandi, keppti í Útsvari með liði Ölfuss og nú síðast var hann í Söngvakeppni sjónvarpsins með Daða og Gagnamagninu.

Hann segir allar keppnirnar skemmtilegar þrátt fyrir að þær séu mjög ólíkar. „Það er erfitt að segja hvað er skemmtilegast. Ég hef mjög mikinn áhuga á spurningakeppnum þannig að mér fannst það gaman en ætli ég verði ekki að segja að Eurovision hafi verið skemmtilegast, það var ótrúlega gaman,“ segir Stefán.

Spurningakeppnir og dansað með Daða

Hann segir að mjög ólíkur bragur sé yfir tveimur vinsælustu spurningaþáttunum, Gettu betur og Útsvari. Spurður um hvort það sé ekki rólegri bragur yfir Útsvari segir hann að keppnin hafi komið sér á óvart. „Þetta er alveg mun meiri keppni en ég bjóst við. En samt miklu rólegra andrúmsloftið einhvern veginn. Það var í raun eins og að æfa íþrótt að vera í Gettu betur. Það var æft allar helgar og alla daga,“ segir Stefán.

Hann var í Gettu betur-liði Fjölbrautaskólans á Suðurlandi árin 2007-2010 og komst í sjónvarpskeppnina 2008 og 2010. „Við fórum alla leið í 8 liða úrslit 2008 en duttum út á móti Menntaskólanum á Akureyri. Árið 2010 náðum við síðan að fara í undanúrslit en duttum út á móti Verslunarskólanum.“

Stefán með Daða og Gagnamagninu en þau enduðu í einvígi …
Stefán með Daða og Gagnamagninu en þau enduðu í einvígi á móti Svölu.


Nýlega tók Stefán þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins og fór alla leið í einvígið á móti Svölu með Daða og Gagnamagninu. Hann er þó sjálfur ekki í tónlist en hann og Daði hafa verið vinir í mörg ár. „Ég er hvorki tónlistarmaður né dansari, tilgangurinn með þessu dansatriði okkar var að reyna að láta okkur líta út eins og 8 bita tölvuleikjakarl. Svona klunnalegur dans, hliðar saman hliðar eins og 8 bita tölvuleikjakarl.“

Þekkir alla króka og kima í Efstaleitinu

Spurður hvort starfsfólk RÚV sé farið að kannast við hann segir hann að svo sé ekki enn.

„Ég myndi nú ekki segja að starfsfólkið á RÚV sé farið að þekkja mig en ég er farinn að þekkja þau mjög vel. Þau sjá milljón andlit á hverjum einasta degi. Ég var að þjálfa FSU-liðið í Gettu betur á RÚV á föstudaginn var. Maður er farinn að þekkja alla króka og kima þarna í Efstaleitinu. Ég kannast mjög vel við mig þarna,“ segir Stefán.

Hann segist þó muna eftir því einu sinni þegar fyrrverandi starfsmaður RÚV hafi kannast við hann, í fyrirlestri í Háskóla Íslands. „Eva María Jónsdóttir var einu sinni með fyrirlestur í tíma hjá mér, hún mundi eftir mér úr Gettu betur en hún var spyrill þegar ég keppti, það var smá fyndið,“ segir Stefán.

Samhliða öllum þessum tímafreku sjónvarpsviðburðum hefur Stefán stundað nám af kappi síðastliðin ár. Hann lauk BA-gráðu í kvikmyndafræði frá Háskóla Íslands 2015 og er núna að mennta sig sem framhaldsskólakennara við sama skóla. Samhliða námi vinnur hann sem verslunarstjóri á Þingvöllum og keyrir þangað alla virka daga. Það eru því mörg járn í eldinum hjá honum en það verður gaman að fylgjast með hvenær hann birtist næst á sjónvarpsskjánum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert