Grásleppuveiðar fara hægt af stað

Með tvær vænar grásleppur.
Með tvær vænar grásleppur. mbl.is/RAX

Rúmlega 60 hafa virkjað leyfi til grásleppuveiða en fjórða degi veiðanna lauk í gær. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir veiðarnar fara hægar af stað þessa vertíð en undanfarin ár.

Á síðasta ári voru 245 bátar á grásleppuveiðum og árið á undan voru þeir 320 talsins. Örn segir þó að hver bátur sé farinn að veiða meira en undanfarin ár.

Hann segir að sums staðar sé þorskur að þvælast fyrir sjómönnum á grásleppuveiðum, en hætta er á að þorskur fari í grásleppunetin ef það er mikið af honum. „Stundum við upphaf vertíðar hefur þorskurinn verið að þvælast mikið fyrir, og það er mikið af þorski á miðunum núna,“ segir Örn. Hann bætir við að þorskurinn hætti að vera vandamál þegar líður á veiðitímabilið.

Miðað er við 20 daga veiðitímabil í upphafi en vonir standa til að það verði framlengt í 32 daga að loknu vorralli Hafrannsóknastofnunar líkt og undanfarin ár. Af átta veiðisvæðum er heimilt að veiða á fjórum þeirra núna.

Flutt út fyrir 2,1 milljarð

Mestu verðmætin eru í grásleppuhrognunum en einnig hefur gengið vel að koma grásleppunni í verð í Kína síðan 2013. Á síðasta ári nam útflutningsverðmæti grásleppuafurða alls 2,1 milljarði króna, þar af fengust 900 milljónir fyrir grásleppukavíar sem er búinn til í tveimur verksmiðjum hér á landi. ash@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert