Hótaði að drepa börn borgarstarfsmanns

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði.
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í dag dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa beitt lögreglumann ofbeldi á Landspítalanum í Fossvogi og fyrir að hafa í hótunum við starfsmann Reykjavíkurborgar.

Samkvæmt fyrri ákæruliðnum var manninum gert að sök að hafa í október 2014 veitt lögreglumanninum högg á háls með þeim afleiðingum að hann hlaut af bólgu og mar. Hafði lögregla verið kölluð til að bráðadeild Landspítalans þar sem starfsfólk óskaði eftir að manninum yrði vísað út vegna ölvunar.

Þá var maðurinn ákærður samkvæmt seinni ákæruliðnum fyrir að hafa í júní árið 2016 hótað starfsmanni Reykjavíkurborgar því að fara heim til hennar í þeim tilgangi að drepa hana og börnin hennar. Starfsmaðurinn starfar í vettvangs- og ráðgjafateymi í málefnum utangarðsfólks en hún ásamt öðrum starfsmanni Reykjavíkurborgar hafði í umrætt sinn verið að vísa ákærða út úr íbúð sem annar skjólstæðingur Reykjavíkurborgar hafi haft til umráða og væri kærasta ákærða.

„Að drepa þig og börnin þín“

Ákærða hafi þó ekki verið heimilt að dvelja í íbúðinni vegna fjarveru hennar en við það hafi ákærði verið ósáttur eftir því sem málsatvikum er lýst í dómnum.
Kvaðst brotaþoli í umrætt sinn hafa staðið fyrir utan húsið sem um ræðir og maðurinn þá snúið sér að henni og sagt: „Á ég að koma heim til þín?“. Þá hafi starfsmaðurinn spurt hvað hann ætlaði að gera heima hjá henni en þá hafi ákærði sagt: „Að drepa þig og börnin þín.“

Sem fyrr segir verður manninum gert að sæta fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi hann skilorði. Þá er honum gert að greiða sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að upphæð 491.040 krónur auk þóknunar fyrri verjanda síns, 204.600 krónur. Þá greiði hann til viðbótar 32.000 krónur í annan sakarkostnað. Maðurinn hefur áður hlotið níu dóma, í flestum tilfellum fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert