Ók upp á stein og valt

Bílvelta varð á hringtorginu við Bolafót og Njarðarbraut í Reykjanesbæ í gærkvöldi en krapi var á veginum og slæmt skyggni. Rann bifreiðin til og endaði uppi á steini og valt. Hún var óökufær eftir veltuna og fjarlægð með dráttarbifreið.

Ökumaður og tveir farþegar sluppu ómeiddir, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Áður hafði orðið árekstur á mótum Njarðarbrautar og Stekks þegar bifreið var ekið í veg fyrir aðra. Annar ökumaðurinn kenndi eymsla eftir óhappið og var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þá reyndist önnur bifreiðin óökufær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert