Þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga fyrrverandi samstarfskonu sinni og til greiðslu tveggja milljóna króna í miskabætur til hennar.

Málið var dómtekið 2. mars en það var höfðað 25. nóvember 2016.

Maðurinn, sem er 24 ára, var sakaður um að hafa 18. janúar 2015 nauðgað stúlkunni, sem þá var 17 ára, í aftursæti bifreiðar eftir árshátíð vinnustaðar þeirra.  

Samkvæmt skýrslu lögreglu var hún kölluð á neyðarmóttöku til að ræða við stúlkuna. Þar kemur fram að hún hafi verið ölvuð en hafi sagt skýrt frá.

Hún greindi frá því að hún og maðurinn hafi gengið saman út undir lok kvöldins og farið að bíl hans.  „Ákærði hefði þar sagt við hana að hann hefði „viljað hana“ síðustu fjóra mánuði. Hún hefði svo dottið inn í aftursætið. Ákærði hefði þá lagst ofan á hana og haft við hana samfarir,“ segir í dómnum.

Stúlkan sagðist við skýrslutökuna oft hafa sagt nei og meðal annars logið því að hún ætti kærasta.

Maðurinn var handtekinn morguninn eftir. Við yfirheyrslu hjá lögreglunni neitaði hann sök og sagðist hafa haft samfarir við stúlkuna með hennar samþykki.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir: „Bæði ákærði og brotaþoli hafa verið stöðug í framburði sínum um framangreind atvik. Þau eru ein til frásagnar um það sem gerðist í bifreið ákærða umrædda nótt. Framburður brotaþola, um að hún hafi ekki verið samþykk samræðinu, fær hins vegar stuðning í framburði vitna, sem rakinn hefur verið, sem sáu hana strax eftir atburðinn.“

Þar segir einnig: „Þá styðja lýsingar vitna á líðan brotaþola eftir atburðinn frásögn hennar. Það er niðurstaða dómsins að leggja beri trúverðuga frásögn brotaþola, sem studdur er framburði vitna, til grundvallar niðurstöðu í málinu. Er því sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi beitt ólögmætri nauðung og haft samræði við brotaþola gegn hennar vilja með þeim hætti sem lýst er í ákæru.“

Með því að nauðga stúlkunni braut maðurinn skilorð en hann hafði verið dæmdur til tveggja mánaða fangelsisrefsingar sem var skilorðsbundin í tvö ár.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert