Verkefnastjórn vegna heimsmarkmiða

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Hjörtur

Ríkisstjórnin hefur samþykkt, að tillögu forsætisráðherra, að skipuð verði verkefnastjórn sem haldi utan um greiningu, innleiðingu og kynningu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Að verkefnastjórninni standa forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Hagstofa Íslands, að því er kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Til að tryggja aðkomu allra ráðuneyta verður  myndaður sérstakur tengiliðahópur verkefnastjórnar og þeirra ráðuneyta sem ekki eiga þar fulltrúa.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna í New York í september 2015. Aðalsmerki markmiðanna er að þau eru algild og ber öllum þjóðum að vinna skipulega að þeim bæði innanlands og í alþjóðasamstarfi fram til ársins 2030.

Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York.
Höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í New York. AFP

Í samningaviðræðunum um markmiðin lagði Ísland sérstaka áherslu á fjóra málaflokka, þ.e. jafnréttismál, málefni hafsins, landgræðslu og sjálfbæra landnýtingu auk endurnýjanlegrar orku.

Í tilkynningunni segir að meginhlutverk verkefnastjórnar sé að ljúka við greiningarvinnu og rita stöðuskýrslu þar sem m.a. verði  lagðar fram tillögur að forgangsröðun markmiða til ríkisstjórnar.

Verkefnastjórn skal jafnframt gera tillögur um framtíðarskipulag og verklag í tengslum við innleiðingu markmiðanna hér á landi. Þá skal hún sérstaklega horfa til þess hvernig samhæfa megi innleiðingu heimsmarkmiðanna og stefnu og áætlanagerð Stjórnarráðsins í samræmi við ný lög um opinber fjármál. Einnig mun verkefnastjórnin huga að því hvernig vinna megi að innleiðingu markmiða í samstarfi við háskólasamfélagið, atvinnulífið og samfélagið í heild sinni og hafa yfirsýn yfir og sinna alþjóðlegu samstarfi um heimsmarkmiðin.

Ríkisstjórnin samþykkti að verja fimmtán milljónum króna í verkefnið af ráðstöfunarfé sínu.  

Ríkisstjórnin samþykkti einnig að veita Félagi Sameinuðu þjóðanna á Íslandi styrk til framleiðslu fræðsluþátta fyrir sjónvarp og samfélagsmiðla um heimsmarkmiðin og Parísarsamninginn um skuldbindingar í loftslagsmálum til ársins 2030. RÚV mun sýna þáttaröðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert