Ætla að safna 80 reiðhjólum

Viðgerðirnar fara fram í klúbbhúsi Íslenska fjallahjólaklúbbsins að Brekkustíg 2.
Viðgerðirnar fara fram í klúbbhúsi Íslenska fjallahjólaklúbbsins að Brekkustíg 2. Ljósmynd/Hjólafærni

Hjólafærni á Íslandi, í samstarfi við fleiri aðila, leitar nú aðstoðar almennings í tengslum við hjólreiðaverkefni sem hugsað er fyrir hælisleitendur og kvótaflóttamenn á Íslandi. Stefnt er að því að safna saman 80 reiðhjólum, gömlum sem nýjum, og koma þeim á göturnar fyrir sumarið.

Þeir sem eiga reiðhjól í geymslunni sem ekki eru í notkun eru hvattir til að koma með þau á endurvinnslustöð SORPU við Ánanaust og gefa til verkefnisins. Þátttakendur munu svo lagfæra hjólin og koma þeim í nothæft ástand fyrir sumarið. Viðgerðirnar fara fram í klúbbhúsi Íslenska fjallahjólaklúbbsins að Brekkustíg 2 en verkefnið er unnið í samvinnu Rauða krossins, Hjólafærni á Íslandi, SORPU, Reykjavíkurborgar og Íslenskra fjallahjólaklúbbsins.

Hjólasöfnunin er hluti af stærra samvinnuverkefni Hjólafærni og Rauða krossins, en á haustdögum var hælisleitendum boðið í hjólaferðir á laugardagsmorgnum í samstarfi við Farfuglaheimilið í Laugardal og Landssamtök hjólreiðamanna. Í tilkynningu frá Hjólafærni eru þeir sem vilja leggja verkefninu lið hvattir til að hafa samband í gegnum netfangið hjolafaerni@hjolafaerni.is eða í síma 864-2776.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert