Dugar bara fyrir tveimur kílómetrum

Haukur Már Sigurðsson á Patreksfirði.
Haukur Már Sigurðsson á Patreksfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þessar fréttir eru vonbrigði, mikil vonbrigði,“ segir Haukur Már Sigurðsson, einn aðstandenda undirskriftasöfnunarinnar sem nú stendur yfir í mótmælaskyni vegna frest­unar vega­fram­kvæmda í Gufu­dals­sveit á Vest­fjörðum. Ríkisstjórnin samþykkti í gær 1,2 milljarða króna aukafjárveitingu til vegaframkvæmda en þar af eiga 200 milljónir að fara í framkvæmdir á Vestfjarðavegi í Gufudalssveit. Haukur Már segir fjármagnið vera langt frá því að duga til að ljúka nauðsynlegum framkvæmdum.

Að sögn Hauks mun undirskrifasöfnunin halda áfram undir örlítið breyttum texta til samræmis við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aukafjárveitinguna. Þegar hafa safnast tæpar 7.000 undirskriftir en aðstandendur söfnunarinnar hyggjast þó ekki láta undirskriftasöfnunina nægja en til stendur að halda baráttutónleika til að vekja athygli á málinu.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um endanlega dagsetningu tónleikanna en þeir fara líklega fram í Reykjavík á næstunni. „Við erum að stefna á tónleika innan tveggja vikna, eitthvað svoleiðis, þar sem við ætlum að reyna að fá vestfirska tónlistarmenn til þess að koma fram,“ segir Haukur Már. Upphaflega hafi þó verið vonast til þess að um yrði að ræða uppskerutónleika til að fagna nýjum vegi um Gufudalssveit en svo virðist sem um baráttutónleika verði þó að ræða.

„Flytur okkur ekki langt“

Segir Haukur að fram hafi komið í máli vegamálastjóra í viðtali fyrir um mánuði að kostnaður við hvern kílómetra við vegaframkvæmdir næmi 100 milljónum króna. „Þannig að þá sérðu hvað þeir ætla langt, þetta eru tveir kílómetrar sem þeir ætla að fara núna. Það flytur okkur ekki langt.“

Segir Haukur að í sínum huga megi líkja ákvörðun ríkisstjórnarinnar um aukafjárveitingu við það að taka nammipokann af barninu sínu og rétta því síðan einn mola. „Þetta er svona hálgerður haltu kjafti-brjóstsykur,“ útskýrir Haukur.  

Á mánudaginn, 27. mars, er von á því að birt verði álit Skipu­lags­stofn­unar á mats­skýrslu Vega­gerðar­inn­ar vegna vega­fram­kvæmd­anna. „Vonandi verður hún þá gleðifréttirnar. En hún kannski dugar skammt ef þetta er svo aftur á móti ekki lengra sem menn ætla í ár,“ segir Haukur að lokum.

Samkvæmt matsskýrslunni hefur Vegagerðinni verið falið að endurbyggja og leggja nýjan Vestfjarðaveg frá Bjarkalundi að Skálanesi við Þorskafjörð og er um að ræða 19,9-22,0 km langan kafla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert