Prinsessupeysa úr Flóanum

Margrét Jónsdóttir, til vinstri, og Ragnhildur Jónsdóttir. Peysan sem Margrét …
Margrét Jónsdóttir, til vinstri, og Ragnhildur Jónsdóttir. Peysan sem Margrét er í er mjög áþekk þeirri sem norska krónprinsessan fékk að gjöf í vikunni í opinberri heimsókn forseta Íslands til Noregs. Ljósmynd/Fanndís Huld Valdimarsdóttir

Meðal góðra gjafa sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti norsku konungsfjölskyldunni í opinberri heimsókn sinni til Noregs fyrr í vikunni var prjónuð lopapeysa til handa Mette-Marit krónprinsessu.

Flíkin er með fallegu rósamynstri og er hönnun Margrétar Jónsdóttir á bænum Syðra-Velli í Flóa. Ragnhildur Jónsdóttir á Stokkseyri hafði það hlutverk að prjóna eftir uppskriftinni, en sjálf gekk Margrét frá peysunni, prjónaði lista framan á og setti rennilás.

Geislandi alþýðustúlka

„Það var núna í byrjun mánaðarins sem haft var samband við mig frá skrifstofu forseta Íslands og falast eftir fallegri gjöf til Mette-Marit. Ég á nokkurn lager af peysum og fann til tólf slíkar til kynningar. Rósamynsturspeysan þótti hæfa best. Já, ég hef lengi fylgst með Mette-Marit, sem var alþýðustúlka í Ósló en varð prinsessa. Hún er geislandi og geðug,“ segir Margrét Jónsdóttir, sem hannaði og prjónaði sína fyrstu peysu með rósamynstri fyrir átján árum. Þá flík fékk dóttir hennar, Ingveldur Þorsteinsdóttir, og peysurnar eru orðnar margar síðan. Margrét prjónar alltaf eitthvað sjálf en sinnir nú einkum hönnun og hefur falið Ragnhildi á Stokkseyri prjónaskapinn sjálfan.

lPrinsessan Mette-Marit og Eliza Reid forsetafrú stinga saman nefjum í …
lPrinsessan Mette-Marit og Eliza Reid forsetafrú stinga saman nefjum í einni af móttökunum í norskri höll vegna heimsóknarinnar frá Íslandi. Ljósmynd/Myriam Marti


„Að prjóna er ástríða mín, ég byrjaði í þessu fimm ára gömul,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir. Peysuna sem fór til Noregs segir hún hafa verið talsvert kúnstverk. Í mynstri hennar sé átta blaða rós samkvæmt uppskriftinni og nokkurt lag þurfi svo allt stemmi. „Ég næ gjarnan að prjóna tvær til þrjá peysur á viku og mér finnst þetta alltaf jafn gaman. Og það er skemmtilegt og auðvitað ákveðin upphefð að vita nú af peysu af mínum prjónum sem prinsessan mun væntanlega bregða sér í. “

Prjónauppskriftir segir Margrét Jónsdóttir að þróist með tímanum þó að meginlínan haldi sér. Þá skipti máli að lopinn sem prjónað er úr sé góður, en hún notar eingöngu lopa sem er úr sérvalinni lambaull sem er unnin hjá Ístex fyrir Ullarvinnsluna á Þingborg í Flóa, en Margrét er meðal kvennanna sem þar starfa. Þar er einnig unnið band sem litað er með jurtum lágsveita Flóans; svo sem gulmöðru, mjaðjurt, birkilaufi, smárablómum, lúpínu og fleira.

Konungleg mynstur

Margar útgáfur af peysum og fleira fallegt er að finna í ullarvinnslunni á Þingborg. Margrét hefur raunar látið víða til sín taka í handverksmenningunni og prjónaskap. Má nefna bókina Lopalist sem hún og Anna Dóra systir hennar tóku saman. Eru þar alls 26 uppskriftir að peysum og fleira í ýmsum útgáfum og með konunglegum mynstrum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert