Skemmtigarðurinn sýknaður í sakamáli

Skemmtigarðurinn Terra Mítica á Spáni.
Skemmtigarðurinn Terra Mítica á Spáni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómstóll á Benidorm hefur sýknað skemmtigarðinn Terra Mítica við aust­ur­strönd Spán­ar í sakamáli sem höfðað var gegn garðinum í kjölfar rúss­íbana­slyssins þar sem Andri Freyr Sveins­son lést sum­arið 2014, þá 18 ára að aldri. Þetta staðfestir Xavier Rodriguez Gallego, lögmaður fjölskyldu Andra Freys, í samtali við mbl.is.

Málinu er þó hvergi nærri lokið en einnig var höfðað einkamál gegn skemmtigarðinum og farið fram á skaðabætur. „Þetta er alls ekki búið,“ segir Xavier og bætir við að einkamálið eigi líklega eftir að taka minnst tvö ár í viðbót.

„Þetta ferli sem var að ljúka núna, það var sakamálið ekki einkamálið,“ útskýrir Xavier. „Það er erfitt að sanna að það væri einhverri framkvæmdastjórn eða einhverjum frá garðinum að kenna, að þeir hafi gert þetta viljandi,“ bætir hann við. Því komi þessi niðurstaða í sakamálinu ekki endilega á óvart og haldið verði áfram af fullum krafti með einkamálið.

„Fáum ekki strákinn okkar aftur“

Hann segir garðinn hafa boðið einhverjar bætur í gegnum tryggingafélag en það boð hafi verið langt undir því sem eðlilegt er. „Þetta var ekki alveg nóg en þeir reyna alltaf að borga bara sem minnst,“ útskýrir Xavier. Til að mynda hafi tryggingafélagið verið að miða við einhverja töflu yfir bætur fyrir bílslys. „Þetta var alls ekki bílslys,“ segir Xavier. 

Að sögn Sveins Sig­fús­sonar, föður Andra, er um að ræða opinbert mál, höfðað af spænska ríkinu. „Það eru ekki peningar sem að við erum að sækjast eftir heldur að það sé tryggt að engin önnur fjölskylda standi í þessum sporum. Það á að vera ódýrara að halda við tækjum heldur en að borga upp mannslíf,“ segir Sveinn. „Peningarnir skipta auðvitað engu máli því að við fáum ekki strákinn okkar aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert