Vilja þróun á velferðartækni

Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Jafnaðarmenn í Norðurlandaráði vilja að Norðurlöndin verði leiðandi í 5G tækni. Það gæti m.a. stuðlað að frekari þróun í velferðartækni. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu þeirra.

„5G er nýjung í tækniþróun sem mun geta haft mikla þýðingu fyrir frekari þróun velferðartækni í heilbrigðisþjónustu. Nýjar stafrænar lausnir leiða til þess að t.d. verði hægt að nýta sér rafræna  heilbrigðisþjónustu óháð stað og stund. Slíkt mundi virka jafnt heima, úti á landi eða erlendis. Eins og staðan er í dag er velferðatæknin aðallega bundin við einn stað, oftast heimilið,“ segir í yfirlýsingunni.

„Þessar nýju stafrænu lausnir væri hægt að nýta á marga vegu. Það væri hægt að nýta þessa tækni til sjálfsumönnunar, hægt væri að setja upp skynjara á heimilum ásamt því að nýta tæknina í samskiptum við heilbrigðisþjónustu heima eða erlendis. Fjaraðstoð mundi einnig virka á þann hátt að sérfræðingar gætu tekið þátt í áætlunargerðar umönnunar í gegnum netsamtal. Slík  þróun mundi auðvelda hreyfanlegu heilbrigðisstarfsfólki að hafa aðgang að læknaskýrslum. Það ætti jafnvel að vera hægt að koma fyrir skynjurum sem mæla lífsmörk einstaklinga.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að Norðurlöndin séu dreifbýlt svæði og á strjálbýlustu svæðunum sé þörfin á þessari tækni mest.

 „Jafnaðarmenn á Norðurlöndum vilja með þessari nýju 5G tækni gera eldra fólki kleift að búa lengur heima hjá sér. Samvinna og miðlun þekkingar er styrkur norræna samstarfsins.“

Undir yfirlýsinguna skrifa Lennart Axelsson og  Rikard Larsson frá Svíþjóð, Karen J. Klint frá Danmörku, Kåre Simensen frá Noregi og Oddný G. Harðardóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í hópi jafnaðarmanna í Norðurlandaráði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert