Fór íbúðavillt í Grafarholti

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Klukkan 6:40 í morgun var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna karlmanns í annarlegu ástandi sem hafði ruðst inn í íbúð í hverfi 113. Sá sem tilkynnti um málið sagði að maðurinn teldi sig búa í íbúðinni en svo væri ekki. Í ljós kom að maðurinn hafði farið íbúðavillt og var honum leiðbeint á réttan stað.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar segir einnig frá tilkynningu um karlmann sem var sofandi ölvunarsvefni í anddyri hótels í miðborginni rétt rúmlega 5 í morgun. Maðurinn var vakinn en um var að ræða erlendan ferðamann sem hafði ekki ratað á hótelið sitt sem var skammt frá. Gekk hann þangað samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu.

Þá var maður handtekinn í hverfi 111 klukkan 5:41 vegna  gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var hann að auki ökuréttindalaus þar sem hann hafði verið sviptur þeim fyrir nokkru. Maðurinn var frjáls ferða sinna að lokinni blóðsýna- og skýrslutöku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert