Lætur ekki niðrandi athugasemdir stöðva sig

Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég vil ekki alhæfa en hluti Íslendinga er með fordóma,“ svaraði Nichole Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurð af þáttastjórnanda Silfursins á Rúv, hvort Íslendingar væru fordómafullir í garð innflytjenda. 

Hún sagðist oft hafa þurft að þola niðurlægjandi athugasemdir um íslenskuna sína sérstaklega þegar hún hefur skrifað til dæmis á Facebook. En hún hafi aldrei látið það hafa nein áhrif á sig og ætlaði ekki að fara að gera það. „Þetta er rangt. Ég vil að fólk hlusti á innihaldið,“ sagði Nichole. Hún sagðist oft hafa fundið fyrir því að fólk vildi ekki hlusta á það sem hún hefur fram að færa heldur afskrifaði hana vegna íslenskunnar sem væri ekki fullkomin.

Ég er alveg reiðubúin að tala við fólk og vil endilega fá að hlusta á hvað það hefur að segja,“ segir hún. Hún segist eiga fullt erindi inn á þing og segir mikilvægt að Alþingi endurspegli alla þjóðina en ekki bara hluta af henni. 

Nichole ræddi um fátækt á Íslandi í þættinum. Í vikunni hafa spunnist umræður um fátækt á Íslandi, einkum eftir ummæli Mikaels Torfasonar í Silfrinu um fátækt í síðustu viku. Í kjölfarið tjáði Nichole sig um fátækt og var ekki alfarið sammála öllu því sem Mikael hélt fram. 

Nichole sagði brýnt að þeir sem flytji til landsins fái aðgang að íslenskukennslu því það væri lykill að samfélaginu. Einnig benti hún á að það þyrfti að halda vel utan um þann hóp sem hefði lægstu tekjurnar. 

Hún sagði jafnframt að þegar hún kom til landsins hefði hún ekki haft mikið milli handanna. Hún vann á leikskóla og skúraði á tveimur stöðum til að ná endum sama. Í umræðunni um fátækt mætti heldur ekki gleyma þeim sem njóta góðs af kerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert