„En hvort heitirðu Grámann eða Bjartur?“

Hörður réttir höndina inn í búrið til Grámanns. Vel fór …
Hörður réttir höndina inn í búrið til Grámanns. Vel fór á með þeim félögum fyrir rest. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir horfast í augu um stund. Svo læðist mannshönd að svörtu trýni. Kisi þefar og samþykkir hikandi klappið. Getur verið að villikötturinn Grámann sé heimiliskötturinn Bjartur sem týndist fyrir átta árum? „Þetta er örugglega hann,“ segir Hörður Heimisson eftir að hafa eytt dágóðum tíma með honum.

Blaðamaður mbl.is fékk að fylgjast með einstökum endurfundum í koti samtakanna Villikatta í gær. Sjálfboðaliðar samtakanna hlúa með margvíslegum hætti að útigangsköttum hér á landi. Þeir gefa þeim að éta og fara með þá til dýralæknis, gerist þess þörf. Oft er köttunum sleppt aftur út í náttúruna, heilsuhraustari en áður. En það kemur einnig fyrir að köttum sem koma í fellibúrin þeirra sé komið fyrir á heimilum. Og Grámann, sem kom í búr í hrauninu í Hafnarfirði í síðustu viku, er einn þeirra.

Árum saman á vergangi

Villikettir höfðu vitað af honum um hríð. Honum var gefið að éta en hann forðaðist þó mannfólk eins og villtra katta er siður. Vitað er að hann hafðist við í hrauninu árum saman. Þótt hann væri mannafæla var hann spakari en flestir villikettir. Grámann var ógeldur og allt frá áramótum hafa Villikettir, með stuðningi hollvinar hans Vilborgar Nordal, reynt að ná honum í búr. Vilborg hefur fóðrað Grámann í að minnsta kosti tvö ár og þekkir hann því ágætlega.

Það tókst loksins í síðustu viku að fanga hann og var hann eftir heimsókn til dýralæknisins færður inn í hlýjuna í kisukoti Villikatta. Þegar samtökin birtu svo mynd af Grámanni á Facebook-síðu sinni létu viðbrögðin ekki á sér standa.

Allir virðast elska Grámann. Einn þeirra sem tjáði sig við færsluna var kattavinurinn Hörður Heimisson. Hann setti þar inn mynd af heimiliskettinum Bjarti, sem hvarf fyrir átta árum og spurði: „Þetta er ekki sami köttur, er það?“

Sérfræðingunum hjá Villiköttum fannst líkindin mikil og ákveðið var að koma á fundum þeirra tveggja. Grámann hafði þá fengið góða aðlögun í kisukotinu, leyfði fólki að klappa sér og var farinn að éta úr lófa þess.

Og í gær var komið að stóru stundinni.

Hörður er mættur fyrir utan kisukotið og brosir spenntur. Inni er mögulega gamli kötturinn hans.

„Jæja, þetta er kisi, þetta er kannski Bjartur,“ segir Vilborg Nordal við Hörð, en hún er einnig mætt til að fylgjast með endurfundunum.

Hörður fer að búri Grámanns og opnar það. Grámann kúrir í einu horninu. Hann lítur svo á Hörð og starir í augu hans. En er þetta kötturinn hans? „Það eru komin átta ár síðan,“ segir hann og virðir steingráan köttinn fyrir sér kúrandi í búrinu. Hann er á þessari stundu ekki viss um að þetta sé Bjartur.

Gott að koma loksins við hann

„Ég fékk að klappa honum í gær, ég bara táraðist,“ segir Vilborg sem hefur hingað til aðeins fengið að horfa á Grámann úr fjarlægð þegar hún hefur gefið honum að éta síðustu misseri. „Það var svo gott að koma loksins við hann.“

Hörður réttir höndina varlega að Grámanni sem í fyrstu pírir á hann augun. Hann er óöruggur, hefur aðeins verið á meðal manna í nokkra daga.

„Hann hefur hvæst en engan bitið,“ segir Arndís Kjartansdóttir sem er í stjórn Villikatta og hefur fylgst með ótrúlegum framförum Grámanns í aðlöguninni. Eftir að hann fannst fór hann til dýralæknis og var geldur. Í ljós kom að þó að vergangurinn öll þessi ár hafi bitið í eyru hans svo á þeim eru kalsár, er hann við hestaheilsu.

Bjartur um eins árs aldurinn (t.v.) og Grámann sem líklega …
Bjartur um eins árs aldurinn (t.v.) og Grámann sem líklega er 8-9 ára gamall. Flestir telja að þetta sé einn og sami kötturinn. mbl.is

Merki um traust

Grámann hvæsir lítið eitt á Hörð sem hlær og lætur það ekkert á sig fá. Hann er öllu vanur, á nú tvo ketti. Öðrum þeirra var bjargað úr „100 katta heimilinu“ svokallaða. Öldungurinn Grámann gefur sig ekkert sérstaklega að Herði í fyrstu en fljótlega leggst hann á hliðina á meðan Hörður strýkur honum. Það finnst sérfræðingum Villikatta merki um traust.

„Grámann er snjall köttur,“ segja þær Vilborg og Arndís sem reyndu nokkrum sinnum að ná honum í búr áður en það tókst að lokum. Hann kom fyrst aðeins með framfæturna inn í fellibúrið, tók matinn og fór aftur út. En svengdin varð þó að lokum til þess að hann fór allur inn í búrið og læstist þar inni. Þá var Vilborg að vakta það og flutti hann í hendur Villikatta.

Grámann hefur þurft að berjast fyrir lífi sínu undanfarin ár, á því leikur enginn vafi. En nú er hann að komast af léttasta skeiði og því nokkuð víst að lífsbaráttan muni harðna enn frekar. Yngri fress gætu hrifsað af honum völdin á hverri stundu. Því er ósköp gott að hann sé kominn í skjól.

„Hann þrýstir sér á móti hendinni þegar ég klappa honum,“ segir Hörður sem gefst ekki upp á að heilla Grámann. Sérfræðingarnir segja það enn eitt merki um traust.

Hörður er hugsi. „Ég veit ekki, það gæti verið... að þetta sé hann,“ segir hann loks hikandi. Þegar Hörður átti Bjart bjuggu þeir á Hverfisgötunni í Hafnarfirði. Það er skammt frá þeim stað þar sem Grámann hefur haldið til síðustu árin. Hörður segir Bjart hafa verið góðan heimiliskött, átt sinn stól og viljað klapp og knús. Hins vegar hvarf hann einn daginn. Hörður fann hann í það skiptið en þá var komið að flutningum og Bjartur hvarf aftur frá nýja heimilinu. Og sneri ekki aftur.

Grámann leyfir Herði smám saman að klappa sér að vild. Strjúka sig allan og klóra sér á bak við kalin eyrun. Á meðan lygnir hann aftur augunum af og til.

Hörður sýnir Vilborgu og Arndísi myndir af heimiliskettinum Bjarti. Í …
Hörður sýnir Vilborgu og Arndísi myndir af heimiliskettinum Bjarti. Í búrinu kúrir Grámann. mbl.is/,Kristinn Magnússon

Hagar sér eins og heimilisköttur

Kisusérfræðingarnir Vilborg og Arndís eru handvissar um að Grámann hafi eitt sinn verið heimilisköttur. Hreinræktaðir villikettir hagi sér allt öðruvísi, þeir leyfa ekkert klapp. Þar tala þær af mikilli reynslu.

Þær hafa séð myndir af Bjarti ungum og segja líkindin gríðarleg. Um sama kött hljóti að vera að ræða. Þær og Hörður standa í hnapp fyrir framan búr Grámanns og skoða myndir af Bjarti sem Hörður er með í símanum sínum. Öll eru þau orðin sammála um að líklegast sé þetta sami kötturinn.

„Þetta gæti verið hann,“ segir Hörður þegar hingað er komið. Hann hugsar málið um stund og segir: „Jú, veistu, ég held að þetta sé hann. Mjög líklega.“

Dýralæknir telur að Grámann sé 8-9 ára. Það passar fullkomlega við aldur Bjarts.

Greinin heldur áfram fyrir neðan Facebook-færsluna.

„Viltu koma?“ spyr Hörður og reynir að lokka hann til sín úr horninu en Grámann er ekki á þeim buxunum. Óöryggið er enn til staðar.

Læðan Vala sem Hörður fékk af „100 katta heimilinu“ tekur ekki blíðlega á móti hvaða ketti sem er. Hún er því líkleg til að sýna Grámanni stjórnsemi og jafnvel hörku. Því treystir Hörður sér ekki til að taka hann að sér, þótt hann gjarnan vilji.

„Hann verður góður heimilisköttur með tímanum,“ segir Arndís. „En það er þolinmæðisverk og hann þarf að læra að treysta.“ Í þeim töluðu orðum mætir ungt par á svæðið sem hafði séð færslur Villikatta um Grámann á Facebook. Parið er áhugasamt um að taka Grámann að sér.

„Ég hef átt kött hálfa ævina og er tiltölulega nýflutt að heiman og finnst svo tómlegt að hafa ekki kisu hjá mér,“ segir konan og gefur Grámanni gaum. „Okkur líst mjög vel á hann,“ segir hún eftir stutta stund. „Hann er miklu ljúfari en ég hélt að hann væri.“ Hún teygir höndina inn í búrið og nú er eins og Grámann sé orðinn öllu vanur og leyfir henni óhikað að klappa sér. Áhuginn á ættleiðingunni minnkar ekki við það. „Við treystum okkur alveg í þetta verkefni.“

Líklega er Grámann því kominn með gott framtíðarheimili til að eyða síðustu æviárunum á. Mbl.is mun að sjálfsögðu fylgjast með framhaldinu.

„Þessi kisi verður ekki til vandræða, það er alveg á hreinu,“ segir Vilborg og beygir sig að búrinu og spyr: „En hvort heitirðu Bjartur eða Grámann?“

Það er kominn tími til að kveðja kisukot Villikatta, Grámann og hinar kisurnar sem þar dvelja í góðu yfirlæti. Hörður kveður Grámann (Bjart?) og segir nokkuð ákveðinn þegar út er komið: „Þetta er örugglega hann.“

Þeir sem vilja fylgjast með Grámanni og starfi Villikatta ættu að bæta þeim við á Snapchat. Notandanafnið er: Villikettir

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert