Ókunnugur maður kleip í rassinn á Sölku

Salka Sól Eyfeld.
Salka Sól Eyfeld. mbl.is/Golli

Söng- og fjölmiðlakonan Salka Sól Eyfeld lenti í miður góðri reynslu á árshátíð Icelandair um helgina þar sem hún kom fram. Salka var við það að stíga á svið þegar ókunnugur maður kleip hana í rassinn. Salka greinir frá atvikinu á Twitter í dag og sendir manninum skýr skilaboð en tístið hefur vakið mikla athygli og höfðu yfir 400 manns líkað við tístið þegar þetta er skrifað.

Í samtali við Vísi segir Salka að hún hafi því miður ekki haft tök á því að bregðast við þessari óviðeigandi framkomu mannsins eins og hún hefði viljað, enda hafi hún þurft að stíga á svið. 

„Ég trúi ekki að þetta sé enn þá að gerast. Ég varð bara svo hissa,“ sagði Salka við Vísi. „Þetta var eiginlega frekar ömurlegt.“ Segir hún að ef hún hefði haft tíma hefði hún spurt manninn hvað honum gengi til en maðurinn sneri sér við og fannst þetta „fyndið og sniðugt“.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Salka hefur orðið fyrir áreiti sem þessu og því miður er hún líklega ekki sú eina sem hefur, jafnvel oft og reglulega, upplifað þess háttar áreiti og dónaskap.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert