Rúlla Hvalfjörðinn á hjólabrettum

Strákarnir lögðu af stað í morgun.
Strákarnir lögðu af stað í morgun. Ljósmynd/Facebook

Nemendur nokkrir í Menntaskólanum við Hamrahlíð ferðast nú um Hvalfjörðinn með heldur óhefðbundnum ferðamáta en þeir renna sér um fjörðinn á hjólabrettum. Fyrir skömmu fór fram góðgerðarvika nemendafélagsins í MH þar sem nemendur söfnuðu áheitum fyrir Kraft, félag ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.

„Við ákváðum bara að kýla á þetta,“ segir Árni Hafstað Arnórsson en hann, ásamt félögum sínum þeim Huldari Hlynssyni og Alexander Joseph Emilssyni, ákvað að fara fyrir Hvalfjörð á hjólabrettum. „Við ætluðum að fara allir í einu í upphafi en einn okkar veiktist í gær,“ segir Árni og lögðu þeir því aðeins tveir af stað klukkan hálftíu í morgun.

Datt eftir þriðjung af leiðinni

Þá varð Árni fyrir því óláni þegar hann var kominn þriðjung af leiðinni að detta og slasa sig lítillega. „Þannig að ég er á bíl núna og er að fylgjast með þeim seinasta,“ segir Árni og mun sá síðasti ljúka ferðinni í kvöld.

Hópurinn hefur sýnt beint frá ferðinni á Facebook í dag og birtir þar einnig myndir frá deginum. Fylgjast má með beinni útsendingu hér neðst í fréttinni. Piltarnir vilja sérstaklega þakka Kjartani vini sínum, sem skutlaði þeim í Hvalfjörðinn í morgun, og foreldrum sínum sem staðið hafa vel við bakið á þeim. 

Áheitasöfnunin stendur enn yfir en allt fé sem safnast rennur til Krafts. Heita má á strákana með því að leggja inn á reikning 0130-05-062957 og kennitöl 310598-2679.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert