Þurfum að ákveða að treysta regluverkinu

Salan á Arion banka var til umræðu í Sprengisandi í …
Salan á Arion banka var til umræðu í Sprengisandi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármálaeftirlitið er orðið geysilega öflugt tæki til þess að grípa inn í á fjármálamarkaði og landsmenn þurfa á ákveðnum tímapunkti að ákveða að treysta regluverkinu. Þetta er meðal þess sem fram kom í orði Katrínar Júlíusdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Til umræðu voru m.a. salan á Arion banka, regluverk FME og traust landsmanna en gestir Kristjáns  Kristjánssonar voru auk Katrínar Ragnar Þór Ingólfsson, verðandi formaður VR, og Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.

Kristján byrjaði á því að spyrja gesti sína hvað þeim fyndist um sölu tæplega 30% hlutar á Arion banka til vogunarsjóða.

Katrín sagði að sér sem borgara þætti það skipta mestu máli að vera með regluverk í lagi „sem haldi það vel utan um eignarhald að við þurfum ekki alltaf að hlaupa upp til handa og fóta þegar hlutir á markaði skipta um eigendur.“

FME orðið geysilega öflugt

Sagði hún jafnframt skipta mestu máli að frá hruni hafi verið gerðar gríðarlegar breytingar á regluverki sem margir stjórnmálaflokkar og nokkrar ríkistjórnir hefðu komið að og sagði Katrín ástandið nú orðið býsna gott og regluverkið að mörgu leyti strangara en í Evrópu.

Þá bætti hún við að Fjármálaeftirlitið væri orðið geysilega öflugt tæki til að grípa inn í og gerði gríðarlega strangar kröfur.

„Ég skil alveg að fólk sé uggandi. Þetta er hérna í fyrsta skiptið frá hruni sem það koma eigendur að fjármálafyrirtækjum aðrir en ríkið og þrotabú. En ég mæli með því að fólk fari á fme.is þar sem allt er mjög skilmerkilega sett fram.“

Þá sagði hún það einnig mjög mikilvæga umræðu að fjármálakerfið eins og það er í dag sé mjög ólíkt því sem það var árið 2008 þegar það hrundi. „Þá fór það upp í áttfalt, tífalt og jafnvel tólffalt af vergri landsframleiðslu en er í dag um 150%. Þetta er orðin afskaplega hefðbundin bankastarfsemi,“ sagði Katrín. „Þetta er allt öðruvísi starfsemi en við sáum þá og það skiptir máli að við ræðum málin á forsendum stöðunnar 2017 en ekki forsendum stöðunnar 2008.“

Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.
Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Gerðu hér enga greiða fyrir hrun

Theodóra sagðist taka undir áhyggjur margra af sölunni á Arion banka. „Mér finnst að við þurfum líka að tala við þjóðina af meira umburðarlyndi og virðingu í þessum málum. Það eru svo margir sem lentu illa í þessu bankahruni og þeir hafa enga þolinmæði fyrir svona. Við getum ekki slengt einhverju fram og útskýrt það eftir á,“ sagði þingkonan.

Bætti hún við að henni þætti óþægilegt að vogunarsjóðirnir væru með eignarhald á bankanum þar sem þeir „gerðu engan sérstakan greiða hér fyrir hrun.“

Hún tók þó undir orð Katrínar um að margt hefði hér breyst síðan í hruninu en sagðist ekki viss um að þjóðin væri upplýst um það og sagði það sér verkefni fyrir sig að upplýsa landsmenn.

Hún ítrekaði þó að hún væri ekki hrifin af þessari þróun og nefndi sem dæmi eignarhald sjóðanna sem fer ekki yfir 9,99% og sagði hún það enga tilviljun þar sem eigendur fjármálafyrirtækja undir 10% teljist ekki virkir eigendur. „Þá þarf ekki að meta orðspor fyrirtækjanna. Orðspor vogunarsjóða er ekkert sérstakt. Þeir koma inn þar sem er gróðavon, eru stutt og fara út með hagnað.“

Þá sagði hún einnig óþægilegt að þessi umræða komi upp á þeim tíma þar sem ríkisstjórnin „sitji með það í fanginu að vera mögulega að fara að selja ríkisbankana“.

Theodóra sagði það augljóst að þessar fréttir valdi óróleika en sýni líka að þjóðin er á varðbergi. „Það er alveg á hreinu og ég ber virðingu fyrir umræðunni og skil hana mjög vel.“

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Theodóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjármála- og eftirlitskerfin skrapa botninn

Ragnar var ekki sammála því að það eigi að bera bankamódelið eins og það er í dag við módelið eins og það var árið 2008 heldur eins og það var áður en bankarnir voru einkavæddir og starfsemi þeirra og þróun út frá því.

„Nú á að selja bankana aftur og það ferli er byrjað. Bæði FME og allt eftirlitskerfið og fjármálakerfið sjálft skrapar botninn í trausti í samfélaginu og hefur gert það mjög lengi. Það er ekkert sem þingið eða aðrir hafa komið með að borðinu sem er þess eðlis að fólk hafi meira traust til bankakerfisins,“ sagði Ragnar.

Sagði hann síðar í þættinum FME hafa að sínu mati algjörlega brugðist í sínu eftirlitshlutverki.

Lýsti hann yfir hugmyndum sínum um að hugsa þurfi bankamódelið upp á nýtt og taka upp svipað kerfi og Sparkasse-kerfið í Þýskalandi sem rekið er í „samfélagslegri mynd“. Benti hann á að þá gæti fólk valið hvort það stundi viðskipti við banka í fjárfestingastarfsemi eða banka „sem sinnir samfélagslegu  hlutverki“.

Sagði hann jafnframt að þúsundir fjölskyldna væru enn að glíma við eftirmála hrunsins þar sem „almenningur var skilinn eftir berskjaldaður í klóm fjármálafyrirtækja.“ Sagði hann marga landsmenn enn í sárum og engar raunverulegar lausnir komnar.

Ragnar Þór Ingólfsson, verðandi formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, verðandi formaður VR.

Einfaldara, minna og hefðbundnara kerfi

Katrín tók næst til máls og sagði Íslendinga ofboðslega fasta í uppgjörinu og „því sem var“ og að á meðan hafi orðið til nýtt fjármálakerfi sem er að hennar sögn að miklu leyti einfaldara, miklu minna og hefðbundnara.

Ítrekaði hún að fjármálakerfið samanstæði ekki aðeins af bönkum heldur af lánveitendum á breiðum grunni. „Fjármálakerfið er hérna til að starfa með fyrirtækjum og fólki, fyrirtækjum að stækka og fólki að koma sér þaki fyrir höfuðið og sinna sínu daglegu lífi. En það þarf að eiga sér þetta samtal og traustið er lykill. Ef það er ekki til staðar verður grunnurinn aldrei sterkur.“

Ragnar tók þá til máls og sagði að sem dæmi um skort á trausti væri hið óskýra eignarhald í kringum söluna á hlutanum í Arion banka. „Í fyrstu fréttum um söluna kom fram að hér væru komnir traustir fjárfestar og alvöru fjárfestar. Síðan kemur í ljós að vogunarsjóðirnir voru að kaupa af sjálfum sér og með tengsl við Cayman-eyjar,“ sagði Ragnar og bætti við að það þyrfti raunverulegar lausnir fyrir fólk til þess að sniðganga þetta kerfi.

Þá benti Katrín á að 2/3 bankakerfisins væru enn í eigu ríkisins og lagði áherslu á að ræða málin út frá regluverkinu og sagði það mun heillavænlegra. Sagði hún skipta máli að skoða það en benti á að upp á síðkastið hafi orðið miklar breytingar og því ekki skrýtið að menn hafi ekki náð að fylgjast með. „Þetta er svo mikið magn af reglum en mjög margt þarna sem ver okkur. Við verðum á einhverjum tímapunkti að ákveða að treysta regluverkinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert