Eru 400 krónur gjöf eða gjald?

Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi.
Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Heit umræða skapaðist um helgina á Facebook-síðunni Bakland ferðaþjónustunnar þegar Jóhanna Kristín Hjartardóttir tilkynnti að innheimtar verða 400 krónur hjá ferðafólki sem kemur að Helgafelli á Snæfellsnesi. Landeigendur segja gjaldið nauðsynlegt til að halda úti þjónustu á svæðinu.

Einhverjir skilja afstöðu landeiganda á meðan aðrir furða sig á þessari ákvörðun um gjaldtöku og hafa áhyggjur af því að þetta sé það sem koma skal víðs vegar um landið. Með slíku áframhaldi verði allt of dýrt fyrir venjulega fjölskyldu að ferðast um landið.

Kvaðir á ábúendum

Leiðsögumaðurinn Árni Tryggvason segist ekki styðja þessa ákvörðun. Hann hafi komið þarna við síðasta haust og þótt jaðra við helgispjöllum að sjá hvernig var búið að loka leiðinni upp á fellið. „Þ.e. þessari „einu sönnu leið“ sem hefst við leiði Guðrúnar Ósvífursdóttur og ganga skal upp samkvæmt ákveðnu rituali. Leiðið stóð þarna eitt í skítasvaði og þvergirt fyrir göngustíginn,“ skrifar Árni og bætir við að það feli í sér ákveðnar kvaðir á ábúendum að búa á merkum sögustað, vilji þeir teljast hæfir til búsetu.

Helgafell.
Helgafell. Ljósmynd/Helga Jónsdóttir

Þær kvaðir fela m.a. í sér skyldu við að halda uppi hefðum og virða söguna auk þess að leyfa sem flestum að nóta. Þið eruð að bregðast þeim skyldum illilega.
Á stað sem þessum er ekki hægt að kvarta yfir ágangi, heldur þarf að virða hann í ljósi sögunnar,“ bætir Árni við.

Gylfi Freyr Guðmundsson spyr hvaða þær kvaðir og skyldur komi. „Það er fullkomlega eðlilegt að þau vilji taka inn gjald (sem að er virkilega hóflegt svo það sé tekið fram) þar sem þau fengu synjun úr sjóðnum,“ skrifar Gylfi og bætir því við að Þingvellir geri nákvæmlega sama hlutinn.

Landeigendur geta lokað svæðinu

Fyrrverandi þingmaðurinn Þór Saari er gríðarlega ósáttur. „Ég mun aldrei borga fyrir að ganga um landið mitt. Hvorki á Helgafelli né annars staðar,“ skrifar Þór. 

Hrafn Arnarson telur ljóst að landeigendur geti lokað fyrir ferðamenn. „Það geta þeir gert ef þeir telja náttúru eða svæðið i hætti. Gjaldtaka er a gráu svæði. Hins vegar finnst mér að Helgafellssveit og Stykkishólmshreppur ættu að sinna malinu,“ skrifar Hrafn og bætir við að munur sé á því hvort fjölskylda sé að koma á svæðið eða stór hópur í rútu.

Helgafell.
Helgafell.

Toppurinn á ísjakanum - andvaraleysi stjórnvalda

Þórir Kjartansson, fyrrverandi framkvæmdastjóri í Vík, segist ljóst að málið sé eldheitt. Það birtist fólki vegna andvaraleysis og getuleysis stjórnvalda í að setja reglur um þetta og fleira í sambandi við ferðamennskuna. „Þetta er bara toppurinn á ísjakanum sem þarna er að birtast og á eftir, ef heldur fram sem horfir, að flæða yfir landið. Þó ég hafi skilning á málstað landeigenda (enda eigandi sjálfur að stóru landi með miklum náttúruperlum) er þetta afleit þróun,“ skrifar Þórir.

Hann bætir við að það sé skelfileg framtíðarsýn fyrir fólk sem vill skoða landið sitt að þurfa stöðugt að vera með veskið á lofti á skoðunarverðum stöðum. „Bílastæðagjöld sem margir eru farnir að tala fyrir eru heldur ekkert annað en dulbúin gjaldheimta á viðkomandi stöðum. Komugjald, sem gæti heitið ,,náttúrugjald" myndi hver einasti erlendur ferðamaður borga með bros á vör. Stærsti hlutinn af þeim potti ætti að fara beint til þeirra sveitarfélaga þar sem þörfin er mest á viðhaldi. Heimamönnum er best treystandi til að gera sem mest úr peningunum.

Hversu oft ferðu út að borða eða í bíó?

Einhverjir benda á að 400 krónur séu nú ekki mikill peningur. „Ef 400 kr munu koma í veg fyrir að fólk fari þangað með börnin sín væri fróðlegt að vita hversu oft sú sama fjölskylda fer út að borða, í bíó, í húsdýragarðinn, í sund og svo framvegis ! Þarf fólk ekki að reyna "reyna" að horfa á hlutina í einhverju samhengi ! Styð ykkur í þessu og finnst gjaldið mjög hóflegt !!!!“ skrifar Kristrún Snorradóttir til að mynda. 

Gott mál finnst mér, er leiðsögumaður og skil ykkar afstöðu,“ skrifar Bettý Grétarsdóttir og Auður Hermannsdóttir er einnig jákvæð í garð fyrirhugaðrar gjaldtöku. „Mér finnst þetta gott mál og myndi glöð borga væri ég þarna á ferðinni- Það er löngu kominn tími til að verðleggja landið okkar - og nota peningana til uppbyggingar eins og víðast þar- Bara áfram þið þarna á Helgafelli!“ skrifar Auður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert